Glersveifa (Eupeodes lundbecki)

Glersveifa - Eupeodes lundbecki
Mynd: Erling Ólafsson
Glersveifa, 12 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa og Asía. Norðanverð Evrópa; Norðurlönd nema allra nyrst í Noregi, Bretland, Holland og Belgía, austur um Þýskaland, Pólland, Rússland og Síberíu allt til Kyrrahafs; Sachalin og Kurileyjar, Kazakstan, Kirgizistan og Mongólía.

Ísland: Tiltölulega sjaldgæf en fundin á láglendi í öllum landshlutum. Mun fleiri fundarstaðir á Norðurlandi en á landinu sunnanverðu, allt frá Ísafjarðardjúpi austur í Öxarfjörð. Sunnan til fundin á höfuðborgarsvæðinu, á Eyrarbakka, í Surtsey, á Skógasandi og í Öræfum.

Lífshættir

Glersveifa hefur fundist við ýmis skilyrði og erfitt er að meta hvert kjörlendi hennar er hérlendis. Á Norðurlöndum finnst hún í barrskógum og blönduðum skógum, í skógarróðrum og skógarjöðrum þar sem hún fær notið sólarljóss. Hún heimsækir blóm á fjölda plöntutegunda, bæði jurtkenndra og trjákenndra og flýgur á tímabilinu frá miðjum maí til loka september. Haustfundir glersveifu í Danmörku og Þýskalandi benda til þess að flugur sem klekjast á haustin færi sig suður á bóginn. Hér á landi hafa glersveifur fundist frá lokum maí og fram yfir miðjan ágúst. Eintak sem fannst í Reykjavík 9. nóvember vekur grun um að um sé að ræða flæking frá Evrópu. Lirfurnar éta blaðlýs.

Almennt

Glersveifa er með fáséðari sveifflugum hér á landi. Hún er með stærri tegundum af sínum skyldleikahópi, með óvenju stórt höfuð, fagurlega svartgljáandi bol og glertæra vængi. Íslensk eintök víkja töluvert frá evrópskum þar sem afturbolur er oft alsvartur og gljáandi eða bara með vott af gulum bogadregnum blettum. Á þeim evrópsku eru gulu blettirnir stórir og dropalaga.

Glersveifa (Eupeodes lundbecki) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Glersveifa (Eupeodes lundbecki) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |