Kjarrsveifa (Syrphus ribesii)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa; norðanverð Asía austur til Kyrrahafs og suður um miðbik álfunnar, Miðausturlönd, Afganistan, Mongólía, NV-Kína; Kanaríeyjar; N-Ameríka frá Alaska suður um miðbik Bandaríkjanna.

Ísland: Láglendi um land allt, mun víðar á landinu sunnanverðu en norðanverðu, á miðhálendinu fundin á afréttum Rangárvallasýslu, í Þjórsárverum, Hvannalindum og Esjufjöllum.

Lífshættir

Kjörlendi kjarrsveifu er að finna í skógum, kjarrlendi og húsagörðum en hún finnst einnig í öðru gróðurríku og sólríku þurrlendi, einkum í blómstóðum og gróðurhvömmum. Laðast mjög að hvannsveipum í blóma. Flugtími hefst í lok maí og nær fram í miðjan ágúst. Lirfurnar finnast á lúsugum gróðri, t.d. laufum trjáa, og éta blaðlýs.

Almennt

Kjarrveifa er ekki áberandi, ein og ein sýnir sig innan um aðrar mun algengari tegundir sveifflugna. Hún lætur auk þess lítið á sér kræla nema helst á sólríkum góðviðrisdögum. Þá laðast hún að ilmandi litfögrum blómum og lúsugu greni í görðum og trjárækt, sést þar gjarnan á sveimi í sólargeislunum í skjólsælum opnum og rjóðrum.

Kjarrsveifa líkist mjög nánasta ættingjanum blómsveifu (Syrphus torvus) og á lýsingin á henni að mestu við um kjarrveifuna einnig. Kjarrsveifa hefur þó oft stærri gula bletti á afturbolnum sem gjarnan renna saman í samfelld belti yfir bolinn. Kjarrsveifu má aðgreina frá blómsveifu á því að augu þeirrar fyrrnefndu eru nakin en ekki þétthærð stuttum hárum eins og augu blómsveifu.

Útbreiðslukort

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 27. apríl 2011

Biota

Tegund (Species)
Kjarrsveifa (Syrphus ribesii)