Vorsveifa (Melangyna lasiophthalma)

Vorsveifa - Melangyna lasiophthalma
Mynd: Erling Ólafsson
Vorsveifa. 10 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, frá Skandinavíu suður til Miðjarðarhafs, austur um Rússland og Síberíu til Kyrrahafs; Mongólía, Japan.

Ísland: Láglendi í öllum landshlutum, nema enn ekki staðfest á norðvestanverðu landinu; á miðhálendinu fundin í Þjórsárverum.

Lífshættir

Kjörlendi vorsveifu eru skóg- og kjarrlendi og ekki síst húsagarðar þar sem gróður vaknar einna fyrst til lífsins á vorin. Hún er snemma á ferð, kemur fram í seinnihluta apríl og sést í mestum fjölda í maí og fyrrihluta júní. Stöku flugur sjást fram í byrjun júlí. Lirfurnar éta blaðlýs sennilega fyrst og fremst á trjám. Tegund sem vaknar svo snemma vors hlýtur að brúa veturinn á púpustigi.

Almennt

Ef til vill nam vorsveifa land hér um miðja 20. öld en hún uppgötvaðist fyrst vorið 1969 í Hafnarfirði. Allt bendir til að mönnum hafi yfirsést hún í allnokkurn tíma því árið eftir fannst hún í Surtsey og næstu tvö sumur í Þjórsárverum. Það bendir til að hún hafi þá þegar verið orðin útbreidd. Hún var án efa flækingur á síðarnefndu fundarstöðunum og bendir það til þess að tegundin hafi haft burði til að dreifast um landið á tiltölulega skömmum tíma eftir að hún hafði náð hér lendingu. Vorsveifa gæti hafa borist til landsins með innfluttum trjám eða jafnvel með vindum frá Evrópu.

Vorsveifa er dæmigerð sveiffluga, dökk, gljáandi, gulhærð, andlit gult með heilan gulan taum upp eftir því miðju, hærð augu, og afturbolur með reglulega lagaða og vel aðskilda gula bletti.

Vorsveifa (Melangyna lasiophthalma) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Vorsveifa (Melangyna lasiophthalma) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Lindroth, C.H., H. Andersson, Högni Böðvarsson & Sigurður H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The Development of a New Fauna, 1963–1970. Terrestrial Invertebrates. Ent. scand. Suppl. 5. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 280 bls.

Erling Ólafsson 2000. Landliðdýr í Þjórsárverum. Rannsóknir 1972–1973. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 40. 159 bls.

Peck, L.V. 1988. Family Syrphidae. Bls. 11–230 í Á. Soós (ritstj.), Catalogue of Palaearctic Diptera 8. Syrphidae – Conopidae. Eslevier, Amsterdam. 363 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |