Dvergsveifa (Neoascia tenur)

Dvergsveifa – Neoascia tenur
Mynd: Erling Ólafsson
Dvergsveifa (Neoascia tenur), kvenfluga. 5 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Mestöll Evrópa og norðanverð Asía austur til Kyrrahafs.

Ísland: Láglendi um land allt, þó enn óstaðfest á Vestfjarðakjálka og gögn vantar frá láglendi Austurlands.

Lífshættir

Dvergsveifa lifir í votlendi ýmiskonar, einkum við tjarnir og polla með ríkulegum sefgróðri með bökkum, eða við gróðurrík dýki og skurði gjarnan með hófsóleyjum (Caltha palustris). Hún heldur til í gróðrinum. Sækir í blómplöntur sem vaxa við þessi skilyrði, einkum hófsóleyjarnar og engjarós (Comarum palustre). Líkast til alast lirfurnar upp seinni hluta sumars í rotnandi blaðslíðrum og stönglum þessara og fleiri plantna í bleytunni. Dvergsveifa er mest á ferð fyrrihluta sumars eða frá því viku af júní og fram eftir júlí. Hefur fundist á ágúst á miðhálendinu.

Almennt

Dvergsveifan og lætur lítið fyrir sér fara í votlendisgróðrinum, flýgur helst ekki upp úr honum og ber því sjaldan fyrir augu. Helst er að finna hana með því að draga skordýraháf eftir gróðrinum.

Dvergsveifa (5 mm) er glæsileg þó hún sé langminnst sveifflugnanna og að mörgu leyti ólík öðrum tegundum. Kvenflugur eru ívið stærri en karlflugur. Hún er svört og gljáandi. Karlfluga er með áberandi gulan blett á næstaftasta lið afturbols en kvenfluga alsvört. Fætur eru dökkir en ljósir í kringum liðamót. Lærliðir afturfóta eru þykkir og með marga stutta og sterka bursta að neðanverðu. Á höfði er munnkanntur framdreginn í mjóan stút. Afturbolur er mjór framan til, breiðari og kylfulaga aftan til.

Dvergsveifa – Neoascia tenur
Dvergsveifa (Neoascia tenur) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |