Mynd: Erling Ólafsson
Letursveifa, kvenfluga. 8 mm. ©EÓ
Útbreiðsla
Gjörvöll Evrvópa suður til N-Afríku og út á haf til Kararíeyja, Azoreyja og Madeira, austur um Asíu til Kyrrahafs, Kasmírs og Nepal, einnig Grænland.
Ísland: Láglendi um land allt og víða á miðhálendinu.
Lífshættir
Letursveifa finnst í margskonar ríkulegum gróðurlendum, eins og kjarrlendi með birki (Betula), víði (Salix) og blómplöntum, í blómlendi, reski og húsagörðum. Flugtíminn er frá byrjun júní og fram yfir miðjan ágúst með hámarki í seinni hluta júní og í júlí. Mest ber á flugunum á sólríkum góðviðrisdögum. Þær hafa þó frekar hægt um sig, fljúga lágt og létt og tylla sér gjarnan fljótt á næstu blóm sem á veginum verða. Þær heimsækja blóm af flestu tagi. Lirfurnar nærast á blaðlúsum.
Almennt
Þó letursveifa sé nokkuð algeng þá ber alla jafna ekki mikið á henni þar sem hún berst yfir á léttu flugi sínu. Það er helst að sjá hana þar sem hún hefur tyllt sér á blóm til að nærast. Þar getur hún setið tiltölulega róleg svo hægt er að virða hana fyrir sér.
Letursveifa er með minni sveifflugum hér á landi og töluvert frábrugðin öðrum tegundum að sköpulagi, ef undan er skilin önnur sárafágæt tegund af sömu ættkvísl, hnúðsveifa (S. fatarum). Letursveifa er fíngerð og léttbyggð. Á frambol eru áberandi gular hliðarrendur, ein hvoru megin, skuturinn einnig gulur og sker hann sig fá annars grænbrúnu baki frambolsins framan við hann. Afturbolur er langur og mjór, einkum á karlflugum, með gulum flekkjum sem mynda nánast belti yfir liðina nema helst á öftustu liðum. Á karlflugum nær afturbolur vel aftur fyrir enda á aðfelldum vængjum en að vængendum á kvenflugum. Kynfæri karslins mynda stóran hnúð aftan á neðanverðum enda afturbolsins. Letursveifa og hnúðsveifa verða ekki aðgreindar eftir þessari lýsingu.
Letursveifa (Sphaerophoria scripta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Heimildir
Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.
Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.
Höfundur
Erling Ólafsson 8. ágúst 2012.
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp