Blómsveifa (Syrphus torvus)

Blómsveifa - Syrphus torvus
Mynd: Erling Ólafsson
Blómsveifa. 11 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa allt norður til Svalbarða; Færeyjar; Asía austur til Kyrrahafs, Austurlönd nær og fjær, N-Ameríka frá Alaska og suður úr; V- og NA-Grænland.

Ísland: Algeng á láglendi um land allt og fundið víða á miðhálendinu.

Lífshættir

Gróðurrík þurr gróðurlendi eru kjörlendi blómsveifu, skóg- og kjarrlendi, húsagarðar, mólendi, skýld blómlendi og gróðurhvammar; hvannstóð. Flugtími nær frá miðjum maí fram í miðjan september. Einnig hefur blómsveifa fundist seint í október. Mestur er fjöldinn um hásumarið, í júní til ágúst. Lirfurnar éta blaðlýs af lúsugum gróðri, t.d. laufum trjáa.

Almennt

Blómsveifa er með algengari sveifflugum í görðum okkar og skóglendi. Á sólríkum dögum má sjá umtalsverðan fjölda sveimandi kyrrstæðar í loftinu í skjóli við hávaxinn garðagróður og í rjóðrum í trjáræktarlundum, gjarnan við lúsuð grenitré. Leita einnig frjókorna í litfögrum angandi blómum og blómsveipum sveipjurta.

Sveifflugur eru sumar hverjar hver annarri líkar í útliti og verða ekki greindar til tegunda með vissu nema með smásjárskoðun. Blómsveifa er með gulan haus að mestu að frátöldum dumbrauðum stórum augunum. Frambolur er grængylltur, gulhærður nema aftasti hlutinn, skuturinn (scutellum), sem er gulur og svarthærður. Afturbolur er svartur með áberandi gulum, langegglaga, pöruðum blettum. Þeir eru misstórir eftir einstaklingum og renna sjaldnast saman í samfelld belti yfir bolinn. Fætur eru að mestu gulir. Þessi lýsing á einnig við um nánasta ættingjann, kjarrsveifu (Syrphus ribesii). Þær tvær má þekkja frá öðrum sveifflugum á því að efri flötur vængbleðilsins (neala), sem er lítill bleðill aftan á vængnum við rótina, samanbrotinn í hvíldarstöðu, er hærður löngum, gulum hárum. Á öðrum tegundum er hann hárlaus. Blómsveifu má svo aðgreina frá kjarrsveifu á því að augu hennar eru þéttsetin stuttum hárum en ekki nakin eins og augu kjarrsveifu.

Blómsveifa (Syrphus torvus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Blómsveifa (Syrphus torvus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Bartsch, H., E. Binkiewicz, A. Rådén & E. Nasibov 2009. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Tvåvingar: Blomflugor: Syrphinae. Diptera: Syrphidae: Syrphinae. ArtDatabanken, SLU, Uppsalir.

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Jensen, J.-K. 2008. Navna og skrásetningarlisti til blómuflugurnar Syrphidae í Føroyum. Óformleg útgáfa. 3 bls.

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |