Hrossafluguætt (Tipulidae)

Folafluga - Tipula paludosa
Mynd: Erling Ólafsson
Folafluga er nýlegur landnemi af ætt hrossaflugna. Eins og arðar tegundir safnast folaflugur gjarnan margar saman á húsveggi. ©EÓ

Almennt

Hrossafluguætt er mjög frumstæð ætt tvívængja og talin nær uppruna ættbálksins en nokkur önnur ætt mýflugna. Flokkunarfræðin er á reiki. Um er að ræða tegundahópa þar sem skilgreiningar hafa tekið breytingum, ýmist hafa stöðu fullgildra ætta eða undirætta innan hrossafluguættar. Einn þessara tegundahópa er silmý sem ýmist telst til sjálfstæðrar silmýsættar (Limoniidae) eða undirættar hrossafluguættar (Limoniinae). Ef gert er ráð fyrir einni stórri ætt er hún ein tegundaríkasta ætt tvívængja með um 15.000 tegundum þekktum í heiminum. Með þrengri skilgreiningu ættarinnar, þ.e. án silmýs, eru yfir 450 tegundir skráðar í Evrópu.

Fjölbreytileikinn er mestur í hitabeltislöndum en margar tegundir finnast einnig á norðlægum slóðum og í fjalllendi. Þó tegundir hrossafluguættar finnist hvarvetna er útbreiðsla margra afmörkuð.

Hrossaflugur eru stærstar mýflugna, með allt að 35 mm langan grannan bol og afar langa granna og brothætta fætur. Vængir langir og jafnmjóir alla sína lengd, oft flekkóttir, vænghaf stærstu tegunda allt að 65 mm. Höfuðlögun er sérstök, höfuð framteygt í langan rana. Fálmarar þráðlaga úr tiltölulega löngum liðum, oft með hárakransa á rótum liðanna. Liturinn er oftast brúnn eða grár.

Kvendýr koma venjulega úr púpu með þroskuð egg í sér og makast við fyrsta tækifæri. Við mökun tengjast kynin á afturendunum og geta setið þannig samtengs tímunum saman, jafnvel brugðið sér á flug samtengd. Síðan verpir kvendýrið frjóvguðum eggjunum í blautan jarðveg. Lirfur eru langar sívalar, Þær hafa höfuðsker sem liggur inni í bolnum að tveim þriðju hluta. Þær éta rotnandi plöntuleifar, þörunga og örverur, og geta þjónað vistkerfum vel. Þó eru til dæmi um tegundir sem nærast á lifandi plöntuhlutum og geta valdið skaða.

Á Íslandi finnast fjórar tegundir hrossafluguættar í þröngri skilgreiningu. Þrjár finnast um land allt og eru algengar sumsstaðar. Ein er nýlegur landnemi sem fjölgar hratt á suðvestanverðu landinu. Hún hefur burði til að verða skaðvaldur á garðaplöntum og í ræktunarstöðvum.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |