Hrossafluga (Tipula rufina)

Hrossafluga - Tipula rufina
Mynd: Erling Ólafsson
Hrossafluga. Einkennandi svart strik á hlið frambols. ©EÓ
Hrossafluga - Tipula rufina
Mynd: Erling Ólafsson
Hrossafluga, karlfluga. 20 mm (aftur á vængenda). ©EÓ
Hrossafluga - Tipula rufina
Mynd: Erling Ólafsson
Hrossaflugur, kvenfluga framar, karlfluga aftar. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, Asía, Mið-Austurlönd, N-Afríka.

Ísland: Land allt, jafnt láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Hrossaflugu er víða að finna enda berst hún auðveldlega með vindum og loftstraumum. Hún er þó rakasækin þar sem lirfurnar alast upp í vel rökum jarðvegi, blautum mosa og rotnandi plöntuleifum, t.d. á vatns- og lækjarbökkum, við dý og vilpur. Hrossafluga er því einna mest áberandi í deiglendi. Hún er einnig áberandi í húsagörðum og oft má sjá fjölda þeirra sitja á húsveggjum. Þar geta þær verið þaulsætnar ef þær eru óáreittar. Gjarnan má sjá hrossaflugur paraðar á húsveggjum, samtengdar á afturendum. Hrossafluga flýgur fyrri part sumars, í mestum fjölda í júní. Hún getur verið árrisul en fyrsta skráða dagsetning er 1. apríl. Það er þó að öllu jöfnu ekki fyrr en upp úr miðjum maí að hrossaflugur fara að sjást reglulega. Svo fjarar undan þeim þegar líður á júlí. Á hálendinu sjást hrossaflugur fram í byrjun ágúst. Lirfurnar vaxa upp fram eftir sumri og púpa sig á haustin, en púpan liggur vetrardvalann. Það hefur þó gerst í seinni tíð, eftir að hlýnandi loftslag fór að lengja sumartíðina, að hrossaflugur hafa skriðið úr púpum að hausti til, en nokkrum hefur verið safnað frá lokum september og fram í nóvember.

Almennt

Sennilega má fullyrða að allir landsmenn, komnir til nokkurs vits, kannist við hrossaflugur. Þær eru það áberandi í umhverfi okkar. Nokkuð er um það að fólki hugnist ekki nærvara þeirra þar sem þær sitja grafkyrrar á húsveggjum með langa granna fæturna útdregna til allra átta. Það er heldur ekki til að auka vinsældir þeirra þegar þær á ómarkvissu flugi sínu, með sína löngu kitlandi fætur, þvælast framan í fólk. Það skal þó haft í huga að hrossafluga er algjörlega meinlaus og hinn gagnlegasti hlekkur í vistkerfinu. Lirfurnar stuðla að niðurbroti plöntuleifa og eru auk þess drjúgir bitar í fuglsnefi.

Það er reyndar ekki svo einfalt að fólk þekki hrossaflugu, því náskyldur ættingi, trippafluga (Tipula confusa), lítur nánast eins út og þarf glögg augu til að aðgreina þær frænkur ef horft er eftir útlitseinkennum. Að jafnaði er hrossafluga ívið stærri en sú staðreynd dugar skammt. Það léttir hins vegar leikinn ef til þess er horft að þær skipta með sér sumrinu nokkuð glögglega. Það er rétt í lok júlí að hægt er að rekast á þær stöllur saman. Fyrir þann tíma sitja hrossaflugur á húsveggjunum en trippaflugur eftir þann tíma. Svo kann hrossaflugan, 2. kynslóð, að birtast í litlum mæli í október ef sumartíð dregst á langinn.

Annars dugar eitt útlitseinkenni ágætlega til að aðgreina tegundirnar tvær. Á hrossaflugu er áberandi svart strik á hliðum frambols en það er óskírt á trippaflugu, í mesta lagi brúnleitt óreglulegt strik sem varla sker sig frá öðru litmynstri. Vængirnir eru nokkuð flikróttir.

Hrossafluga (Tipula rufina) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hrossafluga (Tipula rufina) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Tipula rufina. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=147383 [skoðað 2.5.2012]

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |