Trippafluga (Tipula confusa)

Trippafluga - Tipula confusa
Mynd: Erling Ólafsson
Trippaflugur, par við mökun. ©EÓ
Trippafluga - Tipula confusa
Mynd: Erling Ólafsson
Trippafluga, karlfluga. 19 mm (aftur á vængenda). ©EÓ

Útbreiðsla

Vestanverð Evrópa, frá Norðurlöndum suður til Spánar og austur til Póllands og Eystrasaltsríkja.

Ísland: Sunnanvert landið, frá Snæfellsnesi austur til Hornafjarðar. Stakir fundarstaðir á landinu norðanverðu, í Goðdal á Ströndum og í Öxnadal (gamalt).

Lífshættir

Trippaflugu má sjá í nánast hvaða búsvæði sem er þar sem hún er mikið á flugi og berst víða með vindum. Hún sækir þó öðru fremur í raklendi af ýmsu tagi þar sem lirfurnar alast upp í rökum jarðvegi, blautum mosa og rotnandi plöntuleifum, t.d. á vatns- og lækjarbökkum, við dý og vilpur. Trippafluga heldur gjarnan til í húsagörðum og situr oft á húsveggjum. Þar safnast flugurnar stundum fyrir í kringum útiljós sem hún laðast að þegar hún flýgur í kvöldrökkri. Þar getur trippaflugan reynst þaulsætin að nóttu liðinni fram eftir næsta degi. Eftir stefnumót næturinnar sitja kynin gjarnan daglangt samhangandi á afturendunum og ljúka af þörfum sínum án nokkurs asa. Trippafluga flýgur seinni part sumars, í mestum fjölda í ágúst. Þær fyrstu birtast í seinustu viku júlí og þær síðustu hverfa snemma í október. Ekki er ljóst hvort eggin klekjast á haustin og lirfurnar hefji þá uppvöxtinn og leggist í dvala litlar eða hvort eggin bíði óklakin næsta vors. Í öllu falli þroskast lirfurnar til lokastigs fyrri hluta sumars.

Almennt

Það er athyglisvert að trippafluga finnst aðeins á sunnanverðu landinu þar sem hún er afar algeng. Þar sem hún fannst á Ströndum var hún við jarðhita. Með hlýnandi loftslagi er næsta víst að tegundin fer að færa sig norðar á komandi árum.

Trippafluga er nánast eins útlits og frænka hennar hrossaflugan (Tipula rufina) þó hún sé e.t.v. ívið smávaxnari. Mismunandi flugtími kemur að góðu gagni við að aðgreina tegundirnar tvær ef undanskilin er síðasta vikan í júlí þegar vænta má þeirra beggja á ferli. Trippafluga greinist annars frá hrossaflugu á því að dökk rönd á hliðum frambols er óskýr.

Trippafluga (Tipula confusa) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Trippafluga (Tipula confusa) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Tipula confusa. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=147332 [skoðað 2.5.2012]

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |