Einitíta (Cyphostethus tristriatus)

Einitíta - Cyphostethus tristriatus
Mynd: Erling Ólafsson
Einitíta, 11 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa frá Miðjarðarhafi norður til sunnanverðrar Skandinavíu, austur til V-Rússlands og Tyrklands. Allalgeng og í aukningu í Danmörku og á Bretlandseyjum norður til Skotlands.

Ísland: Þéttbýli á Suðvesturlandi; Hafnarfjörður, Garðabær, Reykjavík, Seltjarnarnes, Mosfellsbær, Kjalarnes. Einnig Flói og Hella á Suðurlandi og  Egilsstaðir, Seyðisfjörður og Fáskrúðsfjörður á Austurlandi.

Lífshættir

Einitíta finnst á heiðum, trjáplantekrum og í görðum. Hún lifir á safa einiberja (Juniperus communis) en hefur einnig fundist á skyldum tegundum kýprusættarinnar, þ.e. lífviði (Thuja) og kýprusviði (Chamaecyparis). Fullorðnar einitítur finnast allt árið en ungviði á tímabilinu frá júní til október. Fullorðin dýr brúa því veturinn.

Almennt

Einitíta lifir ekki hér á landi en berst hingað einkum með innfluttum greinum í jólaskreytingar. Hún fannst fyrst í Kópavogi 1976 og af og til upp frá því eða þangað til mikillar aukningar gætti á síðasta áratug. Árið 1995 bárust Náttúrufræðistofnun Íslands 15 eintök, sex 1996 og sjö 1997, í minni mæli eftir það en þó næstum árlega. Einungis fullorðin dýr hafa fundist hér af þessari glæsilegu skortítu, á tímabilinu 21. október til 28. febrúar og tvær í byrjun júní. Einitíta er okkur fyrst og fremst jólaglaðningur og hluti af stemningunni í aðdraganda jóla. Af 55 eintökum í vörslu Náttúrufræðistofnunar fundust sex í lok nóvember og 42 í desember. Einitítur finnast gjarnan í blómaverslunum sem versla með greinar til jólaskreytinga og á heimilum eftir að skreyttum aðventukransi hefur verið komi fyrir í byrjun aðventu.

Einitíta er fallegt skordýr, græn á lit með ryðrauðar sveigðar rendur á þykka hluta framvængjanna. Þó hún sé í aukningu í nágrannalöndunum, í Englandi til Skotlands einkum vegna aukinnar plöntunar hýsilplantna í görðum og væntanlega hlýnandi loftslags, eru litlar líkur á að hún nái hér fótfestu í bráð. Hún verður þó án efa áfram ánægjuleg uppákoma á heimilum okkar í undirbúningi jólanna.

Einitíta (Cyphostethus tristriatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Einitíta (Cyphostethus tristriatus) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Askew, R.R. 1983. Cyphostethus tristriatus (F.) (Hem. Acanthostomatidae) on Chamaecyparis in South Wales. Entomologist´s mon. Mag. 119: 220.

British Bugs: An online identification guide to UK Hemiptera. Cyphostethus tristriatus Juniper Shieldbug
http://www.britishbugs.org.uk/heteroptera/Acanthosomatidae/cyphostethus_tristriatus.html[skoðað 20.1.2010].

Eales, H. 2007. Cyphostethus tristriatus is in Scotland! Het News 9, Spring 2007: 11.

Erling Ólafsson 1994. Athyglisverð skordýr: Einitíta. Náttúrufræðingurinn 64: 110.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |