Fíflalús (Uroleucon taraxaci)

Fíflalús - Uroleucon taraxaci
Mynd: Erling Ólafsson
Fíflalýs, vænguð og óvængjuð. 2,5 mm ©EÓ
Fíflalús - Uroleucon taraxaci
Mynd: Erling Ólafsson
Fíflalús, vængjuð. 2,5 mm ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa til Norður-Skandinavíu, Bretlandseyjar, Norður-, Mið- og Austur-Asía, Norður-Ameríka.

Ísland:Í byggð víða um land, þó enn ófundin á Suðurlandsundirlendi.

Lífshættir

Fíflalús lifir á túnfíflum (Taraxacum) og hefur fundist í húsagörðum og í skógrækt. Hún heldur sig einkum á neðra borði laufblaðanna og við blaðgrunn. Henni fjölgar gríðarlega síðsumars og skríður þá meira upp í gróðurinn og af honum upp húsveggi og skjólgarða.

Almennt

Fíflalús er nýlegur landnemi hér á landi. Ekki er ljóst hvenær hún mætti til leiks en nokkru upp úr aldamótunum síðustu tók henni að fjölga ótæpilega í görðum höfuðborgarbúa. Elstu sýni sem varðveitt eru í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands eru frá síðsumrinu 2007 en upphaf landnámsins má rekja til Reykjavíkur. Hún var þó farin að láta á sér bera einhverjum sumrum fyrr. Um nokkurra ára skeið fannst hún aðeins á höfuðborgarsvæðinu. Á seinni árum hefur hún breiðst út óðfluga á landsbyggðinni og henni fjölgað sums staðar ótæpilega. Á Austurlandi hefur fíflalús elfst með ólíkindum á örfáum árum en þaðan hafa fyrirspurnir borist í auknum mæli á síðustu árum um þessa svörtu lús sem skríður í hersingum upp húsveggi.

Fíflalús er með stærstu blaðlúsum, auk þess óvenju dökk á lit, ekki græn eins og flestar aðrar blaðlýs. Það athæfi hennar að flæða í fylkingum upp húsveggi síðsumars, frá miðjum ágúst og fram eftir september, og yfir flest sem fyrir verður, jafnvel inn um opna glugga, hefur reynst illa þokkað af garðeigendum. Þegar reynt er að þurrka lýsnar burt springa þær og skilja eftir sig rauðleitar klessur og eru því stundum grunaðar um að sjúga blóð af þeim sem ekki til þekkja. Mest er um fíflalýs í óræktargörðum þar sem túnfíflar fá að fara sínu fram.

Fíflalús (Uroleucon taraxaci) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Fíflalús (Uroleucon taraxaci) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Heie, O.E. 1995. The Aphidoidea (Hemiptera) of Fennoscandia and Denmark. VI. Family Aphididae: Part 3 of tribe Macrosiphini of subfamily Aphidinae, and family Lachinidae. Fauna Entomologica Scandinavica 31. E.J. Brill, Leiden, New York, Köln. 217 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |