Grastifuætt (Cicadellidae)

Almennt

Grastifuætt er afar tegundarík, önnur stærsta ætt skortítna, með um  20.000 tegundir þekktar í heiminum, þar af  um 1.225 í Evrópu. Tifur eru lítil eða meðalstór skordýr, flestar tegundir undir 13 mm á lengd, margar mun minni, t.d. allar íslenskar tegundir, allt niður í 2 mm, stærstu allt að 30 mm. Þær eru kubbslega vaxnar, kýttar, staflaga, höfuð stórt með tiltölulega flatan koll, kúpt eða framteygt enni , niðursítt, með sograna sem veit niður og aftur. Augu kringlótt staðsett ofarlega,  fyrstu fálmaraliðir stuttir, kubbslaga og með hárfína svipu. Framvængir eru að hluta til þykknaðir, með grófum þykkum vængæðum, afturvængir þunnir flugvængir. Stórir afturfætur einkenna tifurnar en þá nota þær til að stökkva líkt og engisprettur. Á þeim eru sterkir hreyfanlegir burstar.

Tifur eru jurtasugur sem sjúga safa úr plöntum, til dæmis grösum og ýmsum trjátegundum. Sumar eru sérhæfðar á fæðuplöntur aðrar ekki. Stundum er fjöldi tifa svo mikill að jörð iðar af þessum hoppandi smádýrum. Þær geta verið skaðvaldar á gróðri og borið sýkingar í plöntur.

Á Íslandi hafa fundist átta tegundir tifa, sex innlendar, tvær aðfluttir slæðingar. Tvær tegundanna eru landnemar frá seinni tíð og finnast eingöngu á trjám og runnum í görðum. Ein tegund er afar fágæt, fundin aðeins á einum stað á Suðurlandi.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |