Heytifa (Jassargus pseudocellaris)

Heytifa - Jassargus pseudocellaris
Mynd: Erling Ólafsson
Heytifa. 3 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa austur austur í vestanverða Síberíu. Útbreiðsla í norðan- og austanverðri Skandinavíu óljós; finnst ekki í Færeyjum.

Ísland: Suðurland, Austurland og Norðurland frá Eyjafirði og austur. Ófundin á norðvestanverðu landinu, frá Hvalfirði til Tröllaskaga.

Lífshættir

Heytifur finnast í allskyns graslendi, einkum þurru, einnig raklendu, gjarnan sendnu og snöggvöxnu valllendi með möðrum og blóðbergi. Oft í kringum heyhlöður. Þær eru jurtasugur og sjúga næringu úr allskyns grösum (Poaceae). Vetrardvali fer fram á eggstigi. Einungis ungviði sést fyrripart sumars en frá júlí og fram á haustið eru fullorðin dýr ríkjandi.

Almennt

Samkvæmt ríkulegu eintakasafni sem varðveitt er á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur heytifa hvorki fundist á Vesturlandi norðan Hvalfjarðar né á Norðurlandi vestan Eyjafjarðar. Það er undarlegt því tegundin er útbreidd og fjölliðuð í öðrum landshlutum. Í viðeigandi hefti í ritröðinni Zoology of Iceland (útg. 1945) er þó skráð að heytifa finnist um land allt, einnig á miðhálendinu. Útbreiðsla heytifu er því verkefni sem þarf að skoða frekar.

Flestir hafa kynnst tifum af eigin raun. Þegar sest er á grasflöt á þurrum góðviðrisdegi tekur grasið gjarnan að iða af örsmáum hoppandi skordýrum sem með atferli sínu minna gjarnan á engisprettur. Þær hoppa upp á buxnaskálmar, eða flíkur og teppi sem fólk leggur undir sig. Það eru einkum þrjár tegundir sem hér eiga í hlut og er heytifa ein þeirra. Tegundirnar þrjár eru líkar í útliti og er það varla á færi leikmanns að aðgreina þær. Yfirleitt finnast þær ekki saman, nema þá í litlum mæli, þó ekki verði séð að nokkur munur sé á búsvæðum þeirra. Aðskilnaðurinn gefur þó til kynna að einhver munur sé á kröfum til umhverfisþátta og að samkeppni verði ekki liðin.

Heytifa er að grunni til gulgræn á lit en alsett dekkra mynstri sem ekki verður lýst frekar, að því undanskildu andlitsmynstur er afar sérstakt. Það er líkast því að andlitið sé stríðsmálað, dökkt með gulum, láréttum strikamerkingum. Þessu er öfugt farið hjá grastifu (Macrosteles laevis), sem einnig er í miklum fjölda þar sem hún finnst, en andlitið á henni er gult með dökkum strikamerkingum. Tegundirnar má einnig aðgreina á því að ennið á heytifu er framdregið í nokkurn spíss en grastifa er með ávalan koll. Undir leðurkenndum framvængjum eru þunnir, mjólkurlitaðir flugvængir en undir góðri stækkun minnir æðamynstur framvængja helst á frumur í laufblaði mosa. Fætur eru alsettir sterkum göddum svipað og á engisprettum og afturfætur eru langir og öflugir stökkfætur.

Heytifa (Jassargus pseudocellaris) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Heytifa (Jassargus pseudocellaris) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fristrup, B. 1945. Hemiptera 1. Heteroptera and Homoptera Auchenorhyncha. Zoology of Iceland III, Part 51. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 21 bls.

Ossiannilsson, F. 1983. The Auchenorrhyncha (Homoptera) of Fennoscandia and Denmark. Part 3: The Family Cicadellidae: Deltocephalinae, Catalogue, Literature and Index. Fauna Entomologica Scandinavica Vol. 7, part 3. Scandinavian Science Press Ltd., Kaupmannahöfn. 979 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |