Veggjalúsarætt (Cimicidae)

Veggjalús - Cimex lectularius
Mynd: Erling Ólafsson
Þekktust tegunda veggjalúsarættar er sjálf veggjalúsin sem tekur mönnum blóð. ©EÓ

Almennt

Ættin er tiltölulega fáliðuð með 90 þekktar tegundir í heiminum. Í Evrópu finnast 8 tegundir í þrem ættkvíslum, þar af 5 í ættkvíslinni Cimex. Um er að ræða smávaxnar tegundir. Bolurinn er nær kringlóttur eða breiðegglaga, flatur en þenst út er hann fyllist blóði. Allar tegundirnar eru blóðsugur sem nærast á blóði dýra með heitt blóð. Lýsnar eru ófleygar en hafa litla óvirka vængvísa. Með stinnum sograna stinga þær í gegnum húð blóðgjafa sinna.

Dýrin þurfa blóðmáltíð til að framleiða egg og sáðfrumur. Um er að ræða fimm stig ungviðis sem öll þurfa máltíð til að komast á næsta þroskastig. Það tekur þau innan við 15 mínútur að fylla sig af blóði. Lýs í híbýlum skilja eftir sig ýmis ummerki, s.s. saurbletti í rúmum, hami eftir hamskipti og stór og vel sýnileg egg. Þær hafa lyktarkirtla sem gefa frá sér sterka lykt sem má jafnvel skynja í rými þar sem mikið er af lúsum.

Lýsnar eru flestar sérhæfðar á blóðgjafa, mun sérhæfðari en aðrar blóðsugur. Stærð rauðra blóðkorna ræður nokkru um val á hýslum. Í neyð geta þær þó lagst á aðrar tegundir. Veggjalús til dæmis setur mannablóð efst á óskalistann en getur einnig lagst á fugla, nagdýr og leðurblökur. Nokkrar tegundir fylgja leðurblökum.

Sitthvað laðar lýsnar að hýslunum, m.a. hitaútstreymi og efnaboð frá honum. Flestar tegundir nærast með nokkurra daga millibili, veggjalús einu sinni í viku ef það er í boði við kjöraðstæður. Fullorðin dýr geta lifað allt að 12 mánuði og lengi í felum án þess að nærast.

Bit lúsanna valda óþægindum. Þær forðast ýmis efni og eru lavender og minta sögð halda þeim frá. Þær geta fengið í sig ýmsar veirur og sýkla sem ná þó ekki að afrita sig sér í þeim. Líkur á að þær beri smit áfram í hýsla sína eru því hverfandi litlar.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |