Tjarnatítuætt (Corixidae)

Almennt

Tjarnatítuætt hýsir skortítur sem lifa alfarið í vatni, í grunnum tjörnum og hægrennandi lækjum, þar sem þær halda sig mest við botninn. Þekktar eru um 500 tegundir í heminum, í Evrópu eru skráðar 73 tegundir.

Bolurinn er ílangur og frekar flatvaxinn mest um 13 mm langur. Á brúnum hálsskildi og þekjuvængjum má greina mjög fíngerðar svartar slitróttar þverrákir. Framfætur eru stuttir en aftari pörin tvö löng, afturfætur með útflöttum hærðum fótliðum, líkastir árum, sundfætur. Höfuð stórt þríhyrnulaga, niðurteygt og munnlimir stuttir, augu einnig þríhyrnulaga, engir fálmarar.

Skortítur tjarnatítuættar eru plöntuætur sem nærast á vatnaplöntum og þörungum. Nota stinglaga munnlimi til að spýta meltingarhvötum inn í plönturnar og sjúga síðan til sín uppleysta vefi plantnanna. Fáar tegundir eru rándýr, sumar leggjast jafnvel á froska.

Eggjum verpa þær á vatnaplönturnar eða steina. Ungviðið líkist fullorðnu dýrunum í smækkaðri vænglausri mynd. Títurnar synda skrikkjótt þegar þær spyrna sundfótunum taktfast í vatnið. Stundum  iðar vatn af þessum athyglisverðu skortítum.

Á Íslandi finnst ein tegund tjarnatítuættar í tjörnum á láglendi um land allt.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |