Þeftítnaætt (Pentatomidae)

Almennt

Þeftítur mynda eina af stóru ættum skortítna með um 5.000 þekktar tegundir í heiminum. Fræðiheitið er dregið af grísku orðunum pente (fimm) og tomos (liður). Væntanlega er það skírskotun til fálmaranna sem gerðir eru úr fimm löngum liðum. Þeftítur er margar meðalstórar til stórar skortítur. Þær eru skjaldlaga, hálsskjöldur stór og breiður, þekjuvængirnir taka við álíka breiðir og jafnhliða fyrst en mjókka síðan aftur í ávalan enda. Þeir eru þykkir fremst en þynnast aftur. Skuturinn er stór þríhyrningslaga, dregst út í sljóan odd aftan við miðju þekjuvængjanna. Bolurinn er breiður og flatur að ofan en samt nokkuð hár. Höfuð tiltölulega lítið oft inn undir hálsskildinum.

Flestar þeftítur eru plöntuætur en sumar rándýr, sumar jafnvel hvort tveggja. Plöntuætur geta reynst hýsilplöntunum skaðlegar með því að stinga göt á blöð og aldin og hleypa sýklum inn í vefina. Geta einnig gengið hart að þeim þegar mikill fjöldi leggst á þær og sýgur úr þeim safann. Margar þeftítur eru því alvarlegar meinsemdir í ræktun ávaxta. Skordýraeitur vinnur illa á þeim.

Oftast liggja fullorðin dýr vetrardvalann, koma svo fram á vorin til að verpa eggjum í þéttan hnapp neðan á laufblöðum. Gráðugt ungviði vex upp yfir sumarið. Þeftítur seyta frá sér illa þefjandi varnarvökva út um göt á frambol þegar þær verða fyrir truflun. Þefurinn er oft mjög áleitinn og viðloðandi.

Þeftítur lifa ekki á Íslandi en slæðast jafnan til landsins með innfluttum ávöxtum, grænmeti og ýmsum öðrum tilfallandi varningi. Alls hafa 15 tegundir verið nafngreindar. Þeftítur berast helst hingað yfir vetrarmánuðina en á þeim tíma leita þær oft inn í vörugeymslur í heimahögum til að koma sér fyrir. Því þvælast þær léttilega með varningi um langar vegalengdir. Af þessum sökum finnast hér einkum fullorðnar þeftítur að vetrarlagi.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |