Marmaratíta (Halyomorpha halys)

Útbreiðsla

Austur-Asía, Kína, Tævan, Japan. Hefur flust þaðan í seinni tíð til N-Ameríku og S-Evrópu og fest sig í sessi.

Ísland: Slæðingur á Suðvesturlandi; Reykjavík, Garðabær, Hafnarfjörður, Keflavíkurflugvöllur, einnig Akureyri.

Lífshættir

Marmaratítan finnst við ýmis skilyrði, ekki síst á plantekrum ýmiskonar. Hún liggur vetrardvalann sem fullorðin og fer að koma sér fyrir og undirbúa sefninn þegar kólnar á haustin. Þá leitar hún inn í hús, stundum þúsundum saman til að koma sér fyrir. Hún kemur svo fram í dagsljósið á ný í lok maí og leggst á fæðuplönturnar. Títurnar makast og verpa mörgum eggjum saman í klasa á laufblöðum og ungviði vex upp og þroskast fram eftir sumri. Marmaratíta er jurtasuga sem lifir á fjölmörgum tegundum plantna. Hún getur reynst umtalsverður skaðvaldur í ræktun grænmetis og ávaxta af hinum ýmsu tegundum, s.s. ferskjur, epli, perur, sojabaunir, grænar baunir, kirsuber og brómber og veldur útþensla hennar því verulegum áhyggjum. Eins og aðrar þeftítur seytir marmaratíta eitruðum varnarvökva úr kirtlum á afturbolnum sem aftrar fuglum og eðlum frá því að leggja sér hana til munns. Við snertingu gefur hún þennan vökva frá sér og lyktar hann sterkt og áleitið, áþekkt kóríander.

Almennt

Marmaratíta er áhugaverð þeftíta sem var aðeins að finna í Austur-Asíu þar til að hún gerðist víðförul. Í blálok síðustu aldar fór hún að finnast í Bandaríkjunum og var talið að hún hefði borist þangað með vélbúnaði og umbúðum frá Asíu. Síðan hefur hún breiðst út vestan hafs og fjölgað mikið í Bandaríkjunum og Kanada. Svipaða sögu er að segja frá Suður-Evrópu þar sem tegundin var fyrst staðfest formlega í Sviss árið 2008 og af nokkrra ára eldri ljósmynd sem tekin var í Þýskalandi. Síðan hefur marmaratíta fest sig í sessi í fleiri löndum, Frakklandi, Ungverjalandi, Grikklandi og á Ítalíu. Fjölgunin er mun hraðari vestan Atlantsála en austan. Í heimahögum í Asíu lifir sníkjuvespa sem verpir í eggin og heldur fjölgun í skefjum. Svo virðist sem slíkan óvin vanti í Ameríku en e.t.v. hefur einhver evrópsk tegund náð að fylla skarð þeirrar asísku.

Landvinninga títunnar fór fljótt að gæta hér á landi en marmaratítur tóku að berast hingað með varningi nær samstundis. Fyrstu þrjú tilfellin tengjast innfluttningi varnings frá Bandaríkjunum. Sú fyrsta fannst í Reykjavík 2009. Næst voru fimm eintök gómuð í stórri pakkningu með málverkum í tollinum í Leifsstöð 2010 og að síðustu tvö eintök í tollinum í Sundahöfn 2011. Í kjölfar þessa hafa Náttúrufræðistofnun Íslands borist sex eintök af höfuðborgarsvæðinu og þrjú frá Akureyri en ekki er kunnugt um uppruna þessara. Sagan hér fellur ágætlega að því sem gerðist beggja vegna Atlantshafs. Tegundin tók að berast hingað frá Ameríku í kjölfar fjölgunar hennar þar og síðan gæti hún fullt eins verið að koma hingað frá S-Evrópu. Alls eru skráð tíu tilfelli hér á landi og eru eintökin sautján í safni Náttúrufræðistofnunar.

Títurnar sem hingað hafa borist eru allar fullþroska og hafa fundist á tímabilinu frá snemma í október fram í miðjan febrúar, þ.e. á vetrarsvefntímanum. Þær höfðu efalítið komið sér til vetrardvalar í vörugeymslum í upprunalöndum og þannig lent á þvælingi.

Marmaratíta er dæmigerð þeftíta, flatvaxin og breið, aðeins 1,5 sinnum lengri en breið, grábrún og yrjótt, með áferð svipaða og dökkur marmari. Hún líkist fléttutítu (Rhaphigaster nebulosa) umtalsvert og varð því ekki auðveldlega eftir henni tekið í fyrstu. Á jaðri afturbols fléttast saman áberandi hvítir og svartir flekkir eins og á fléttutítu, fremst á skuti, við hálsskjöld, eru þrír ljósir punktar sem aðgreina marmaratítu frá fléttutítu og ljósir blettir á mótum liða á fálmurum eru mun minni.

Útbreiðslukort

Heimildir

Cesari, M., L. Maistrello, F. Ganzerli, P. Dioli, L. Rebecchi & R. Guidetti 2015. A pest alien invasion in progress: potential pathways of origin of the brown marmorated stink bug Halyomorpha halys populations in Italy. J. Pest Sci 88: 1-7.

Milonas, P.G. & G.K. Partisinevelos 2014. First report of brown marmorated stink bug Halyomorpha halys Stål (Hemiptera: Pentatomidae) in Greece. EPPO Bulletin 44: 183-186.

University of Florida. Entomology and Nematology Department. Featured Creatures. http://entnemdept.ufl.edu/creatures/veg/bean/brown_marmorated_stink_bug.htm.

Wikipedia. Brown marmorated stink bug. https://en.wikipedia.org/wiki/Brown_marmorated_stink_bug.

Höfundur

Erling Ólafsson 17. nóvember 2016, 18. janúar 2018

Biota

Tegund (Species)
Marmaratíta (Halyomorpha halys)