Mauraætt (Formicidae)

Almennt

Ættin er ein sú tegundaríkasta í heimi skordýranna. Hún tilheyrir undirættbálki gaddvespna (Apocrita) og er líkast til þróuð út frá sama meiði og geitungarnir. Talið er að tegundir í heiminum gætu verið nálægt 22.000 en þeim hefur þó fjarri því öllum verið skipað í kerfið. Maurar eru félagsskordýr sem stundum búa fáir saman en oftar fjölmargir jafnvel svo að samfélög þeirra telji milljónir einstaklinga þar sem hver og ein gerð hefur vel skilgreint hlutverk. Maurar eru ákaflega mikilvægir fyrir vistkerfin þar sem þeir lifa og þjónusta þau á marga lund. Fjölbreytileiki lífshátta, sérhæfni og aðlögunar er með ólíkindum.

Maurar eru alltaf auðþekktir sem slíkir. Þeir minnstu eru agnarsmáir, þeir stærstu meðalstór til stór skordýr, einkennandi í formi með kúlulaga frambol og afturbol sem tengjast með mitti með hnúði sem einkennir maurana. Kvikir fálmarar eru áberandi hnébeygðir um svipu á löngu skafti. Maurarnir hafa stungubrodd tengdan við eiturkirtil falinn í afturbolnum og eru þekktir fyrir að framleiða maurasýru sem þeir sprauta sér til varnar

Á Íslandi hafa fundist minnst 16 tegundir maura, langflestar tilfallandi slæðingar sem sumir hafa sest að í húsum tímabundið. Sennilega eru 4 tegundir nokkuð fastar í sessi, húsháðar að miklu leyti.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |