Nálvespnaætt (Ichneumonidae)

Almennt

Nálvespur finnast um heim allan. Þær voru löngum taldar hvað mikilvægastar í tempruðu loftslagi, en óvarlegt var að álykta sem svo vegna þess hve hitabeltið hefur verið lítið kannað. Ættin er gríðarlega tegundarík. Um það bil 24.000 tegundum hefur verið lýst í heiminum en áætlað er að þær gætu jafnvel verið yfir 100.000. Þeim hefur verið skipað í um 40 undirættir en í þeim efnum er þó margt á huldu. Þegar evrópska fánan er skoðuð ein  og sér þá er ættinni skipt upp í 36 undirættir og skráðar tegundir í kringum 4.950.

Nálvespur eru sníklar á fjölmörgum öðrum smádýrum. Einna algengast er að þær leggist á lirfur og púpur fiðrilda, bjallna, æðvængna og tvívængja. Egg köngulóa koma auk þess oft við sögu hjá ættinni og er þar margt sérhæft ónefnt. Til eru tegundir sem sýkja nálvespur inni í öðrum hýslum. Nálvespur gegna afar mikilvægu hlutverki við að viðhalda jafnvægi í heimi smádýranna og veita tegundum aðhald sem annars myndi fjölga von úr viti með ófyrirséðum afleiðingum, t.d. fyrir gróður og matjurtaframleiðslu.

Nálvespur eru afar fjölbreytilegar að stærð og gerð, allt frá fáeinaum millimetrum og yfir 70 millimetra. Langflestar hafa langteygðan grannan bol með  greinilegt mjótt mitti á milli frambols og afturbols, stundum þó breiðara. Tvö pör vængja, framvængir mun stærri er afturvængir, vængæðar einkenna ættina og aðskilja hana frá öðrum náskyldum. Langir grannir fætur oftast án bursta en með spora.  Augu oft stór á hliðum höfuðs, kringlótt eða egglaga, þrjú punktaugu á enni, fálmarar langir, grannir þráðlaga, stundum mjög langir, minnst 16-liða. Kvendýr hefur örmjóan varpbrodd sem það notar til að verpa eggjum í gegnum inn í hýsil eða utan á hann, mismunandi gerðar eftir tegundum. Lirfur éta síðan hýsilinn upp innan frá lifandi. Eitur fylgir oft eggjum í gegnum varpbroddinn til að deifa hýsilinn. Einhverjar stórar tegundir geta notað varpbroddinn og eitur hans sér til varnar.

Á Íslandi eru 84 tegundir skráðar, þar af ein eingöngu innanhúss í bakaríum og þrjár slæðingar. Þessar tölur segja ekki alla söguna. Nokkurn fjölda tegundanna hefur enn ekki tekist að greina alla leið í tegundir og í safni Náttúrufræðistofnunar er drjúgur fjöldi eintaka af ógreindum tegundum. Nálvespur draga heitið af oddhvössum varpbroddinum. Þær hafa einnig verið kallaðar sleddur.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |