Heiðanálvespa (Ichneumon ligatorius)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa og Asía austur til Kamchatka.

Ísland: Láglendi um land allt, mun algengari á Suðurlandi en Norðurlandi, á miðhálendinu fundin við Veiðivötn.

Lífshættir

Heiðanálvespa finnst einkum í mólendi, kjarrlendi og graslendi, þ.e. í gróskumiklu þurrlendi þar sem hún kemst í tæri við heppilega hýsla. Hún verpir eggjum í lirfur fiðrilda, væntanlega yglutegunda fyrst og fremst. Oft má sjá þessar sníkjuvespur fljúga um í gróðrinum leitandi að fórnardýrum. Heiðanálvespa hefur verið klakin úr lirfum hringyglu (Mniotype adusta) og grasyglu (Cerapteryx graminis). Einnig hafa skógbursti (Orgyia antiqua) og grasvefari (Eana osseana) verið grunaðir um að geta nýst tegundinni til uppeldis. Skráður flugtími heiðanálvespu nær frá fyrri hluta júní og fram í októberbyrjun, en flestar eru á ferli í ágúst og fram í septemberbyrjun. Það bendir til þess að fiðrildalirfur sem vaxa upp eftir mitt sumar, eins og t.d. hringyglan, séu vænleg fórnarlömb. Ekki er kunnugt um vetrardvalastig tegundarinnar, en fullorðna stigið liggur undir grun vegna þess hve flugtími dregst fram á haustið.

Almennt

Heiðanálvespa er með stærri tegundum sníkjuvespna hér á landi, það stór að hún vekur á stundum athygli fólks, hvort heldur er forvitni eða óþarfan óhug. Auk stærðar er hún áberandi á lit. Höfuð er svart með gulum blettum á andliti, til hliðar við augun, frambolur einnig svartur með hvítan díl ofan á skuti, afturbolur karla svartur nema annar og þriðji en þeir eru dökkleitir framan til en annars áberandi rauðir. Á kerlum eru annar og þriðji liður einlitir rauðir og hvítur blettur ofan á aftasta lið, við varpbroddinn. Afturbolur karla er langur og mjór, mun styttri á kerlum. Fætur eru tvílitir, svartir stofnliðir, en aðrir liðir mynstraðir svartir og rauðir. Móanálvespa (Ichneumon extensorius) er náinn og nauðalíkur ættingi. Það má aðskilja tegundirnar með því að skoða í stækkun litla kítínplötu við vængrætur. Hún er rauðleit á heiðanálvespu en svört á móanálvespu.

Útbreiðslukort

Heimildir

Fauna Europaea. Ichneumon ligatorius. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=331808 [skoðað 17.10.2012]

Petersen, B. 1956. Hymenoptera.. Zoology of Iceland III, Part 49–50. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 176 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 17. október 2012, 30. janúar 2017

Biota

Tegund (Species)
Heiðanálvespa (Ichneumon ligatorius)