Kjarrnálvespa (Pimpla arctica)

Kjarrnálvespa - Pimpla arctica
Mynd: Erling Ólafsson

Kjarrnálvespa (Pimpla arctica), kvendýr. 20 mm (aftur á brodd). ©EÓ

Runnanálvespa - Pimpla arctica
Mynd: Erling Ólafsson
Runnanálvespa (Pimpla arctica), kvendýr. 20 mm (aftur á brodd). ©EÓ

Útbreiðsla

N- og M-Evrópa og áfram austur Rússland og Síberíu til Kamchatka. Norðræn tegund sem er algengust á norðanverðu útbreiðslusvæðinu.

Ísland: Láglendi um land allt, einnig á Vesturöræfum á miðhálendinu austanlands.

Lífshættir

Kjarrnálvespa finnst einna helst í birkiskógum, kjarrlendi og runngróðri og í auknum mæli í gróðurríkum húsagörðum. Hún er sníkjuvespa sem verpir eggjum í lirfur fiðrilda. Engir hýslar hafa verið staðfestir hér á landi en í Evrópu hafa yglulirfur (Noctuidae) verið nefndar og ekki kæmi á óvart að fetalirfur (Geometridae) komi einnig við sögu hér á landi. Fjölgun í húsagörðum bendir til þess en þar er mun minna af yglum að hafa en fetum. Kvendýr koma eggjum sínum fyrir inni í fiðrildalirfum. Lirfur sníkjuvespnanna sem klekjast úr eggjunum éta síðan innvols hýslanna og hljóta þeir af hægfara dauðdaga. Eins og margar fleiri tegundir sníkjuvespna stuðlar runnanálvespa að því að halda fiðrildastofnum í skefjum sem annars gætu reynst meiri skaðvaldar á gróðri en raun ber vitni. Kjarrnálvespa flýgur allt sumarið eða frá miðjum maí og fram í byrjun október. Það bendir til þess að ýmsar tegundir fiðrildalirfa þjóni sem hýslar. Upplýsingar um dvalastig liggur ekki fyrir.

Almennt

Kjarrnálvespa er e.t.v. algengari hér á norðanverðu landinu en sunnanlands enda norðræn tegund. Á seinni árum hefur henni fjölgað umtalsvert jafnvel svo að hún er farin að vekja athygli fólks en það er óvenjulegt fyrir sníkjuvespur af þessu tagi. Reyndar á hún það til að koma inn um glugga og stendur þá ekki öllum á sama. Kjarrnálvespa er nefnilega með stærri tegundum sníkjuvespna hér á landi og kvendýrið hefur óvenju langan og áberandi varpbrodd aftur úr líkamanum. Broddurinn kann að virka ógnvekjandi en hann er notaður í þeim eina tilgangi að stinga í fiðrildalirfur til að koma eggjum fyrir innvortis í þeim. Það kann að hljóma undarlega að svo norðsækinni tegund skuli fjölga með hlýnandi loftslagi en sennilega tengist því að aukinni grósku í görðum og þara með auknu framboði af hýslum.

Kjarrnálvespa er stórvaxin sníkjuvespa. Umtalsverður stærðarmunur er þó innan tegundarinnar og kann það e.t.v. að tengjast mismunandi stórum fiðrildalirfum sem þær fá til að gæða sér á í uppvextinum. Yglulirfa er vissulega mun ríkulegri matarkista en fetalirfa. Stærstu kjarrnálvespurnar eru myndarleg dýr og er því ekki skrítið að eftir þeim sé tekið, einkum þegar þær taka að baksa innan á glugga. Bolurinn er svartur og tengslin á milli frambols og afturbols tiltölulega breið miðað við margar aðrar sleddur. Varpbroddurinn er um helmingur af lengd afturbolsins, þráðbeinn, svartur og sterklegur. Fætur eru rauðir nema stofnliðir fram- og miðfóta og langliður afturfóta sem eru svartir.

Kjarrnálvespa – Pimpla arctica
Kjarrnálvespa (Pimpla arctica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Pimpla arctica. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=330203 [skoðað 31.5.2012]

Petersen, B. 1956. Hymenoptera.. Zoology of Iceland III, Part 49–50. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 176 bls.

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |