Furuvoðvespa (Acantholyda erythrocephala)

Útbreiðsla

Evrópa nema allra syðst og austur í evrópska Rússland. Innflutt til Austur-Kanada (Ontario).

Ísland: Höfuðborgarsvæðið; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Hafnarfjörður.

Lífshættir

Furuskógar eru kjörlendi furuþélu. Furuvoðvespa lifir á furum (Pinus) af ýmsum tegundum. Fullorðnu dýrin eru á ferli á vorin og fyrri hluta sumars, frá viku af maí og fram í seinni hluta júní. Kvendýrin verpa eggjum á furunálar síðasta árs og lirfurnar, margar saman í spuna, éta gamlar furunálar með því að losa þær og draga inn í spunahjúpinn. Ef gamlar nálar ganga til þurrðar leggjast þær á nýsprottnar nálar. Fullvaxnar lirfur falla til jarðar og búa um sig í spunahylki í jarðveginum til að brúa veturinn. Þær púpa sig svo á vorin.

Almennt

Furuvoðvespa er nýlegur landnemi hér á landi. Hún fannst fyrst í garði í Breiðholti í júní 1994 þar sem þær voru margar saman á litlu furutré sem hafði verið fellt. Síðan hefur hún fundist hér og þar á höðuðborgarsvæðinu, frá Seltjarnarnesi til Hafnarfjarðar.

Í Mið-Evrópu og Kanada er tegundin talin alvarleg meinsemd á furum. Hún leggst fyrst og fremst á lítil og ung tré og með atlögum í nokkur ár getur hún hreinlega gengið að trjánum dauðum.

Furuvoðvespa er einstök í útliti og líkist engri annarri tegund hér. Auk þess er hún tiltölulega stór af blaðvespu að vera, kvendýr stærri, breiðari og grófgerðari en karldýr, en bæði kyn flatvaxin. Furuvoðvespa er blásvört á lit, hálfgljáandi, og vængir svarbrúnir. Á karldýrum er haus svartur nema andlitið neðan við fálmara gult niður á kjálkana. Kvendýr hafa rauðgulan haus að undanskildum svörtum bletti umhverfis punktaugun þrjú ofan á hausnum miðjum. Rauðgulur hausinn stingur mjög í stúf við blásvartan bolinn og er fræðiheitið af þessu útlitseinkenni dregið, þ.e. erythrocephala sem merkir með rauðan haus. Fætur eru blásvartir á báðum kynjum nema framfætur um hné og niður eru gulir. Lirfan er með ógreinilegar gangvörtur, græn- eða gráleit með brúna díla í þverröndum yfir bakið.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Encyclopedia of Live. Acantholyda erythrocephala. http://www.eol.org/pages/604216 [skoðað 6.7.2011]

Fauna Europaea. Acantholyda erythrocephala. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=354267 [skoðað 6.7.2011]

Natural Resources Canada. Pine false webworm. http://imfc.cfl.scf.rncan.gc.ca/insecte-insect-eng.asp?geID=1000130 [skoðað 6.7.2011]

Olsen, L.-H., J. Sunesen og B.V. Pedersen 2005. Små dyr i skoven. Gyllendal, Kaupmannahöfn.

Höfundur

Erling Ólafsson 6. júlí 2011, 11. nóvember 2021.

Biota

Tegund (Species)
Furuvoðvespa (Acantholyda erythrocephala)