Trjávespnaætt (Siricidae)

Almennt

Ættin er af undirættbálki sagvespna (Symphyta). Hún er ekki tegundarík en um 150 tegundir eru þekktar í heiminum og deilast þær á 10 ættkvíslir. Í Evrópu er aðeins 21 tegund skráð í 4 ættkvíslum.

Trjávespur eru stórar allt upp í 50 mm sú stærsta, bolurinn  gildur og sívalur, og er mittið breitt. Þær eru brúnar, bláar eða svartar, stundum gular eða rauðgular að hluta, gjarnan gljáandi. Einlitar dökkar oft með fætur ljósa að hluta. Egglaga augu á stóru höfði, sterkir bitkjálkar, fálmarar þráðlaga oft langir. Vængir stórir, framvængir stærri en afturvængir. Á öftustu bakplötu er langur oddur yfir löngum varpbroddinum. Umtalsverður munur getur verið á sköpulagi og litum kynjanna. Fálmarar lengri á karldýrum, kvendýrin mun gildari, með lengri odd á öftustu bakplötu og mjóan, langan, slíðraðan varpbrodd, endinn er eins og bor og nær hann langt aftur úr bolnum, mislangt þó eftir tegundum.

Eggjum er verpt í tré með því að stinga varpbroddinum inn undir börkinn. Lirfurnar éta sig inn í viðinn, vaxa þar upp í tvö ár eða lengur. Koma sér fullvaxnar aftur út undir börkinn, spinna um sig silkihjúp og púpa sig. Nýklakið dýr grefur sig síðan út í gegnum börkinn með sterkum kjálkunum.

Trjávespur lifa ekki á Íslandi en eru líklegar til að nema landið. Alls hafa 9 nafngreindar tegundir fundist og einhverjar ónafngreindar að auki, innfluttar með viði, til dæmis timbri og vörubrettum.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |