Reklaþéla (Amauronematus amentorum)

Reklaþéla - Amauronematus amentorum
Mynd: Erling Ólafsson
Reklaþéla. 6 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel. N- og M- Evrópa og austur um Síberíu, norðurslóðir N-Ameríku, Grænland.

Ísland: Láglndi um land allt.

Lífshættir

Reklaþéla finnst hvarvetna á láglendi þar sem víðir (Salix) vex, jafnt í villtri náttúru sem í manngerðu umhverfi. Reklaþélur skríða úr púpum á vorin og leita þá uppi víðirekla og verpa kvendýrin eggjum sínum í kvenreklana þegar þeir hafa opnað sig. Þau nota sagarlaga varppípuna til að koma eggjum sínum inn í reklana. Lirfurnar nærast svo inni í reklunum fram eftir sumri og hola þá innan. Þær púpa sig síðsumars og falla með reklunum til jarðar. Púpurnar liggja vetrardvalann. Fyrstu reklaþélur sýna sig í seinnihluta maí en mest er um þær í fyrrihluta júní þegar víðireklar eru í fullum skrúða. Þær eru fáséðar þegar kemur fram í júlí en sú síðasta er skráð um miðjan mánuðinn. Vitað er að tegundin verpir í rekla gulvíðis (S. phylicifolia) og loðvíðis (S. lanata) og eflaust fleiri tegunda en það hefur í raun ekki verið skoðað neitt sérstaklega hér á landi.

Almennt

Reklaþéla er með algengari sagvespum (Tenthredinidae) hérlendis og má stundum sjá allnokkrar saman á sama víðireklinum. Ekki er vitað hvort atlögur þeirra við reklana sé til þeim til skaða. Þó svo að stöku rekill líði fyrir er ljóst að víðirunnarnir eru vel aflögufærir um rekla.

Reklaþéla er eins og flestir ættingjarnir dæmigerð sagvespa sem lifir á víði en það gera þær fleiri. Til að greina tegundina með vissu þarf að skoða eintök undir stækkun. Bolurinn er einlitur, svartur jafnt á efra borði sem því neðra. Fætur eru ljósari, lærliðir (femora) fölleitir að hnjáliðnum, langliðir (tibiae) fölleitir að innanverðu en dekkri að utanverðu.

Reklaþéla (Amauronematus amentorum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Reklaþéla (Amauronematus amentorum) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Discover Life. Amauronematus amentorum. http://www.discoverlife.org/proceedings/0000/6/html/Tenthredinidae [skoðað 23.5.2012]

Fauna Europaea. Amauronematus amentorum. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=355533 [skoðað 23.5.2012]

Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson & Erling Ólafsson 2002. Dulin veröld. Smádýr á Íslandi. Mál og mynd, Reykjavík. 171 bls.

Petersen, B. 1956. Hymenoptera. Zoology of Iceland III, Part 49–50. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 176 bls.

Höfundur

Was the content helpful? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |