Hindberjaþéla (Cladius brullei)

Hindberjaþéla – Cladius brullei
Mynd: Erling Ólafsson

Hindberjaþéla (Cladius brullei), kvendýr. 7 mm. ©EÓ

Hindberjaþéla – Cladius brullei
Mynd: Erling Ólafsson

Hindberjaþéla (Cladius brullei), ungar lirfur. 7 mm. ©EÓ

Hindberjaþéla – Cladius brullei
Mynd: Erling Ólafsson

Hindberjaþéla (Cladius brullei), fullvaxin lirfa. 11 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa, Norður-Ameríka, Argentína, Ástralía og Nýjasjáland.

Ísland: Reykjavík, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Kollafjörður, Biskupstungur, Fljótshlíð og Akureyri.

Lífshættir

Hindberjaþéla er það nýlega uppgötvuð hér að lífshættir hennar eru enn óljósir. Lirfurnar halda sig á neðra borði laufblaða. Hindber (Rubus idaeus) og brómber (R. fruticosus) eru þekktar fæðuplöntur lirfanna, einnig tegundir reyniviðar (Sorbus). Þar sem lirfur hafa fundist hér bæði að vori og síðsumars má gera ráð fyrir tveim kynslóðum yfir sumarið. Í Norður-Ameríku hafa þrjár kynslóðir verið staðfestar. Fullvaxnar lirfur falla til jarðar, grafa sig niður í jarðveginn og spinna um sig silkihjúp áður en þær púpa sig. Væntanlega leggjast fullorðnar þélur seinni kynslóðar í vetrardvala. Karldýr ku vera fáséð og verpa kvendýr eggjum án frjóvgunar á blaðstilka að brumhulstur nýrra sprota.

Almennt

Hindberjaþéla er tegund á norðurhveli sem borist hefur til Ástralíu og Nýjasjálands, einnig til Argentínu. Hún er nýr landnemi hér á landi sem hefur að öllum líkindum borist til landsins með góðurvörum í seinni tíð. Hún kom fyrst fram í veiði ljósgildru í Fljótshlíð í september 2014 en varð ekki greind til tegundar fyrr en síðar. Í apríl 2017 fundust óvenjulegar lirfur á hindberja- og brómberjaplöntum í ræktun í gróðurhúsi í Biskupstungum. Voru þær farnar að skaða plönturnar með nagi sínu og valda áhyggjum. Lirfum var safnað og þær aldar til að klekja þeim út úr púpum. Kom þá í ljós hver tegundin var. Í ágúst sama ár var lirfum safnað af hindberjarunna í köldu garðgróðurhúsi í Mosfellsbæ og voru skemmdir á runnanum umtalsverðar. Þá sáust lirfur á hindberjaplöntum í garðgróðurhúsi á Akureyri í október 2018. Plönturnar komu upphaflega frá nefndri gróðrarstöð í Biskupstungum. Í júní að ári komu þær aftur fram. Sumarið 2019 fundust síðan lirfur á hindberjaplöntum á þrem nýjum stöðum, á hússvölum í Hafnarfirði, í húsagarði í Reykjavík og í trjárækt í Kollafirði þar hefur hindber hafa lagt undir sig skógarbotn. Hindberjaþélan hefur því fest sig í sessi jafnt í gróðurhúsum sem utanhúss og mun að líkindum skjóta upp kolli víðar eftir því sem hindberjaplöntum vindur fram með hlýnandi loftslagi. Þá eru reyniviðir af ýmsum tegundum í görðum og ilmreynir (Sorbus acuparia) auk þess víða í birkiskógum og trjáræktarreitum.

Hindberjaþéla (7 mm) er lík öðrum íslenskum tegundum á fullorðinsstigi. Hún er alsvört, lærliðir svartir fram að gulum enda, langliðir gulir, ystu fótliðir dekkri. Lirfurnar eru hins vera ólíkar öðrum blaðvespulirfum. Litlar lirfur eru einlitar ljósgrænar en þegar þær þroskast og stækka fara þær að dökkna og verða þá dökkgráar til svartar á baki en áfram grænar að neðan. Litaskil eru skörp á miðjum hliðum. Fullvaxnar ná þær 12 mm lengd.

Hindberjaþéla – Cladius brullei
Hindberjaþéla (Cladius brullei) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Anon. 2007. First record of raspberry pest Priophorus brullei (Dahlbom) (Hymenoptera: Tenthredinidae: Nematinae: Cladiini) in South America. Proc Entomol. Soc. Wash. 109: 496-498.

Global Biodiversity Information Facility (GBIF). Cladius brullei. (https://www.gbif.org/species/4491450)

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |