Hærupysja (Coleophora algidella)

Hærupysja - Coleophora algidella
Mynd: Erling Ólafsson
Hærupysja. 7 mm. ©EÓ
Hærupysja - Coleophora algidella
Mynd: Erling Ólafsson
Hærupysja, lirfur á axi vallhæru. 7 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Skráð útbreiðsla hærupysju er undarleg og bendir til takmarkaðrar þekkingar enda er ættkvíslin fjölliðuð og tegundir flestar afar áþekkar. Hún finnst í N-Evrópu utan Íslands í Noregi, auk þess í S-Evrópu, í Frakklandi, á Spáni og Ítalíu; einnig í Austurlöndum nær. Heimsútbreiðslan er því frekar ósannfærandi.

Ísland: Láglendi um land allt, algengust á sunnanverðu landinu.

Lífshættir

Kjörlendi hærupysju er graslendi og valllendi, einkum þar sem vallhæra (Luzula multiflora) vex, bæði þurr og deiglend graslendi. Lirfurnar nærast á aldinum vallhæru og fleiri tegunda, t.d. axhæru (L. spicata), móasefs (Juncus triglumis), hrossanálar (J. arcticus) og músareyra (Cerastium alpinum). Þær spinna um sig sterkt hulstur sem ver þær vel. Aðeins haus stendur fram úr hulstrinu og fætur, þegar þær færa sig um blómöxin og éta. Lirfuhulstrin hanga föst á öxum plantnanna til hausts og falla með grösunum. Ekki er vitað hvort lirfurnar púpa sig fyrir vetrardvalann eða að honum loknum. Ef mið er tekið af flugtímanum er líklegra að lirfurnar púpi sig að afloknum vetrardvala. Fiðrildin skríða svo úr púpunum, þau allra fyrstu um mánaðamótin maí/júní en að öllu jöfnu ekki fyrr en eftir miðjan júní. Flest fljúga þau í seinnihluta júní og fyrrihluta júlí. Eru fáséð síðar en koma þó fyrir allt fram í miðjan ágúst.

Almennt

Hærupysja er ásamt sefpysju (Coleophora alticolella) minnst fiðrildategunda hér á landi. Hún er auk þess grannvaxin og með mjóa vængi. Með aðfellda vængi er hærupysja eins og lítill grannur stafur, einlit ljósgul, og vekur litla eftirtekt þar sem hún situr á stráum. Lirfurnar á öxum vallhærunnar vekja hins vegar meiri athygli, þar sem hulstrin standa út frá öxunum, stundum nokkur saman á axi og breyta verulega ásýnd axanna. Hærupysja og sefpysja verða ekki aðgreindar nema með rannsóknum á kynfærum þeirra. Á það við um bæði kyn.

Hærupysja (Coleophora algidella) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hærupysja (Coleophora algidella) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Fauna Europaea. Coleophora algidella. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=436216 [skoðað 9.6.2011]

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |