Skjóslæða (Anania hortulata)

Skjóslæða - Anania hortulata
Mynd: Erling Ólafsson
Skjóslæða. 11 mm (bolur) mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa frá Skandinavíu suður til Miðjarðarhafs; N-Ameríka, norðurríki USA og syðst í Kanada. Frekari upplýsingar um útbreiðslu liggja ekki fyrir.

Ísland: Fágætur slæðingur í Reykjavík.

Lífshættir

Skjóslæða finnst við fjölbreyttar aðstæður, gjarnan í umhverfi mótuðu af mönnum, svo sem í görðum, limgerðum og vegköntum, þvælist gjarnan inn í hús og getur jafnvel lifað innanhúss þar sem hentug fæða býðst. Úti flýgur hún á tímabilinu frá maí til júlí. Hrekst auðveldlega upp úr gróðurþykkni á daginn en flýgur þó frekar í rökkri og að nóttu til. Laðast gjarnan að ljósum. Lirfurnar vaxa upp síðsumars, ágúst til september, leggjast í vetrardvala í spunahjúp, t.d. undir lausum trjáberki eða í holum stönglum stórgerðra plantna, og púpa sig á vorin. Þær éta brenninetlu (Urtica dioica) öðrum plöntum fremur en margar aðrar tegundir nýtast henni einnig jafnt villtar sem ræktaðar. Lirfurnar spinna saman lauf fæðuplöntunnar eða rúlla þeim upp til að gera sér skýli.

Almennt

Skjóslæða er gædd nokkru flökkueðli en ólíklegt er að hún berist hingað til lands öðru vísi en fyrir tilstilli okkar manna. Það gerist þó sjaldan, aðeins fjögur tilvik eru kunn. Fyrsta eintakið fannst í byrjun febrúar 1992 og hafði borist erlendis frá með varningi í hús við Tunguháls í Reykjavík. Tveim árum síðar, eða um miðjan febrúar 1994, fannst skjóslæða þar í næsta nágrenni, en hún var á flögri inni á lager ÁTVR við Fossháls og önnur á sama stað tveim vikum síðar, í byrjun mars. Sú síðasta fannst svo í verslun Ellingsen við Eyjarslóð á hlaupársdag 2008. Hún var talin hafa borist með innfluttu hjólhýsi. Það er athyglisvert að öll tilvikin eru frá sama árstíma, þ.e. febrúar og byrjun mars, sem er utan hefðbundins flugtíma í N-Evrópu. Þessir slæðingar hingað hafa því sennilega átt uppruna að rekja til suðlægari landa.

Skjóslæða er afar fallegt fiðrildi þó ekki sé hún stórvaxin. Vængirnir, bæði framvængir og afturvængir eru sérkennilega mynstraðir, svartir og hvítir. Höfuð og frambolur eru gulleit, frambolur með svörtum blettum á baki og guli liturinn teygir sig út á rætur framvængja. Afturbolur svart- og gulröndóttur.

Netluslæða (Anania hortulata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Netluslæða (Anania hortulata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Fauna Europaea. Anania hortulata. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=442814 [skoðað 22.2.2012]

Goater, B. 1986. British Pyralid Moths. A Guide to their Identification. Harley Books, Colchester. 175 bls.

North American Moth Photographers Group. Anania hortulata. http://mothphotographersgroup.msstate.edu/large_map.php?hodges=4952 [skoðað 22.2.2012]

Olsen, L.-H. & J. Sunesen 2003 (3. útg. 2009). Små dyr i hus og have. Gyllendal, København. 279 bls.

UK Safari. Small Magpie Moth. http://www.uksafari.com/smallmagpie.htm [skoðað 22.2.2012]

Wikipedia. Anania hortulata. http://en.wikipedia.org/wiki/Anania_hortulata [skoðað 22.2.2012]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |