Mynd: Erling Ólafsson
Reyrslæða. 12 mm. ©EÓ
Útbreiðsla
Norðurhvel. Evrópa, nema allra syðst, austur eftir Síberíu til Japan, N-Ameríka.
Ísland: Láglendi um land allt, algeng á landinu sunnanverðu en sjaldgæfari fyrir norðan. Fer ekki upp á hálendið.
Lífshættir
Reyrslæða finnst í þurru og raklendu graslendi og valllendi, svo og í mýrlendi, gjarnan við jarðhita. Algeng í reyrgresisbrekkum. Lirfur hýrast yfir veturinn fullvaxnar í spunahulstri ofan í grasþúfum og púpa sig í hulstrinu á vorin. Fiðrildin fara að skríða úr púpum snemma í júní og sjást á flugi allt til miðbiks september. Það er þó sjaldgæft að sjá þau svo seint og er þá e.t.v. um að ræða fiðrildi af 2. kynslóð. Lirfurnar vaxa því upp yfir sumarið. Þær nærast á ýmsum tegundum grasa og hálfgrasa, s.s. vinglum (Festuca), sveifgrösum (Poa) og mýrafinnungi (Trichophorum cespitosum).
Almennt
Reyrslæða flýgur einkum á kvöldin og nóttinni en hún hrekst auðveldlega upp þegar gengið er um valllendi þar sem mikið er af henni. Þá iðar af fiðrildum. Hún er auðþekkt á framvængjum sem eru sérkennilega formaðir í endann og með áberandi hvítri breiðri rönd langsum eftir þeim, svo og löngum munnlimum sem skaga fram úr hausnum og hylja sogranann.
Reyrslæða (Crambus pascuella) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Heimildir
Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.
Goater, B. 1986. British pyralid moths. A guide to their identification. Harley Books, Colchester. 175 bls.
Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.
Höfundur
Erling Ólafsson 6. október 2009.
Var efnið hjálplegt?
Aftur upp