Tígrisbursti (Tyria jacobaeae)

Tígrisbursti - Tyria jacobaeae
Mynd: Erling Ólafsson
Tígrisbursti. Bolur 13 mm, vænghaf 42 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Frá Bretlandseyjum og Íberíuskaga í vestri, austur um M- og S-Evrópu, sunnanvert Rússland og Síberíu til Kína, norður til S-Noregs og S-Svíþjóðar, flækingur í Eystrasaltsríkjunum og S-Finnlandi, slæðingur í Færeyjum. Innflutt til USA, Kanada og Ástralíu.

Ísland: Fágætur slæðingur í Reykjavík og Keflavík.

Lífshættir

Tígrisbursti lifir í þurrum gróðurlendum með opnum gróðri, grýttu og sendnu, í vegköntum, gömlum malarnámum, á sandströndum o.s.frv. Einnig á rakara landi með vatnsbökkum og árfarvegum. Tígrisbursti er fyrst og fremst á ferli á daginn og flýgur helst í sólskini, gjarnan lágt yfir jörðinni og stuttar vegalengdir í einu. Annars situr hann í gróðrinum og fer sér hægt. Hann er einnig nokkuð á ferli í myrkri. Hann er tryggur kjörlendi sínu og lítið á ferðinni utan þess. Hann á það þó til að fara í útrás þegar vel gengur til að nema ný lönd.

Fiðrildin fljúga frá lokum maí til seinnihluta júní. Eggjum er verpt neðan á blöð fæðuplöntunnar á meðan þau vaxa enn í kransi niðri við jörð í byrjun vaxtartímans. Fiðrildin verpa nefnilega það snemma að plönturnar hafa enn ekki náð að vaxa upp að neinu marki. Lirfurnar éta fyrst neðstu blöðin en færa sig ofar þegar þær stækka, allt upp í blómkörfuna. Tegundin lifir fyrst og fremst á krossfíflum (Senecio). Lirfur hafa einnig fundist á öðrum tegundum, t.d. hóffífli (Tussilago farfara), brenninetlu (Urtica dioica) og túnfíflum (Taraxacum). Lirfurnar halda sig oft margar saman þar til þær ná fullum vexti og eru þá afar áberandi í sínum skærlitaða beltabúningi. Þegar mikið verður af lifrum eru fæðuplönturnar étnar upp til agna og svelta þá margar til dauða. Lirfurnar eru eitraðar, eins og varnarlitur þeirra gefur til kynna, og eru því ekki étnar af öðrum. Þær taka nefnilega upp úr fæðuplöntunum pyrrolizidin-alkalóiða sér til varnar. Lirfurnar ná fullum vexti síðsumars og púpa sig í mosasverði eða undir steinum, eftir að hafa spunnið um sig gisinn hjúp.

Almennt

Tígrisbursti er fágætur slæðingur með varningi hingað til lands. Getið hefur verið um tvö eintök héðan frá því um miðja 20. öld. Annað þeirra var með öllu án upplýsinga en hitt fannst í Keflavík í febrúar 1948, þ.e. utan hefðbundins flugtíma. Það er alkunna að ró kvikinda getur raskast þegar mannskepnan atast í búsvæði þeirra. Næst fannst krossfífilsstígri í Reykjavík viku af janúar 1986. Ekki eru kringumstæður kunnar. Um miðjan febrúar 2004 fannst svo einn í blómum í blómaverslun í Reykjavík. Að öllum líkindum má rekja komur tígrisburstanna til blómainnflutnings frá ræktunarstöðvum í Vestur-Evrópu. Lirfur sem hafa púpað sig í blómapottum í stöðvunum ná síðan að klekjast hingað komnar inn í hitann á sölustöðum plantnanna. Síðast fannst tegundin í heildverslun í Reykjavík í byrjun júní 2004. Engar líkur eru á því að tegundin geti numið hér land í bráð þó vissulega vaxi hér hentugar fæðuplöntur. Einnig er afar ólíklegt að hann nái að fljúga hingað af sjálfsdáðum.

Tígrisbursti er mikið átvagl sem getur gengið nærri fæðuplöntum sínum þegar mikið er af lirfum. Vegna þessa var hann fluttur markvisst til Norður-Ameríku og Ástralíu á 6. áratug síðustu aldar til að vinna á krossfíflinum Senecio jacobaea, sem bendir til að þar þyki hún full ágeng planta.

Tígrisbursti er sérstakt og einstaklega fallegt fiðrildi. Bolurinn er dökkur, svargrár, framvængir dökkgráir með daufri brúngrænni áferð. Rétt innan við frambrúnina er vínrauður taumur út eftir vængnum og tveir þannig litir hringlaga blettir við vængenda. Afturvængir einlitir vínrauðir að undanskilinni dökkri kantrönd. Lirfurnar eru afar sérkennilegar, beltóttar. Hausinn er dökkur en á bolnum eru á víxl jafnbreiðir gulir og svartir hringir um bolinn, tólf af hvorum lit. Dæmigerður viðvörunarlitur sem gefur í skyn að um eitrað óæti sé að ræða. Á svörtu beltunum eru fætur og gangvörtur, einnig löng svört bursthár.

Tígrisbursti (Tyria jacobaeae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Tígrisbursti (Tyria jacobaeae) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Hydén, N., K. Jilg & T. Östman 2006. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Fjärilar: Ädelspinnare-tofsspinnare. Lepidoptera: Lasiocampidae-Lymantriidae. ArtDatabanken, SLU, Uppsala.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Wikipedia. Cinnabar moth. http://en.wikipedia.org/wiki/Cinnabar_moth [skoðað 14.12.2011]

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |