Einifeti (Eupithecia pusillata)

Einifeti - Eupithecia pusillata
Mynd: Erling Ólafsson
Einifeti. 8 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, frá suðri til norðurs, og austur um Síberíu allt til Kyrrhafs. Hefur sést í Færeyjum en staða tegundarinnar þar óviss.

Ísland: Mjög dreifðir fundarstaðir á vestan- og sunnanverðu landinu, frá Ísafjarðardjúpi austur í Suðursveit.

Lífshættir

Kjörlendi einifeta er í kjarrlendi og mólendi þar sem einir (Juniperus communis) vex. Flugtíminn hefst eftir miðjan júlí og varir fram í miðjan september, með hámarki um miðjan ágúst. Lirfurnar nærast á nýjum og mjúkum barrnálum einis og vaxa upp fyrri hluta sumars. Þær púpa sig í spunahýði í sverði. Eggin brúa veturinn.

Almennt

Einifeti er fátíður hér á landi. Fundarstaðir eru dreifðir og tegundin tiltölulega fáliðuð. Það var tiltölulega lítið um einifetann vitað þar til fiðrildarannsóknir hófust hér á landi með ljósgildruveiðum árið 1995. Hann sést nefnilega lítið á flögri en laðast gjarnan að ljósi.

Einifetinn er ekki auðgreindur frá öðrum tegundum ættkvíslarinnar Eupithecia. Grunnlitur og mynstur framvængja minna einna helst á lyngfeta (E. nanata). Vængirnir eru þó breiðari, svipaðir og á mófeta (E. satyrata), en með heldur sveigðari framjaðar en hann. Hreistrið slitnar fljótt af vængjum og mynstur verður ógreinilegt. Það torveldar greiningu. Hins vegar hjálpar það verulega til að af þessum tegundum flýgur einungis einifetinn svo seint að sumri.

Einifeti (Eupithecia pusillata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Einifeti (Eupithecia pusillata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |