Birkifeti (Rheumaptera hastata)

Birkifeti - Rheumaptera hastata
Mynd: Erling Ólafsson

Birkifeti. 15 mm. ©EÓ

Birkifeti - Rheumaptera hastata
Mynd: Erling Ólafsson

Birkifeti, fullvaxin lirfa. 15 mm. ©EÓ

Birkifeti - Rheumaptera hastata
Mynd: Erling Ólafsson

Birkifeti, púpa. 13 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Umhverfis norðurhvel. N-Evrópa, í Skandinavíu til nyrstu sveita, suður til Alpafjalla, austur um Asíu til Kína og Japans, norðanverð N-Ameríka frá norðurríkjum Bandaríkjanna vestur til Alaska og austur til Labrador.

Ísland: Algengur í viðeigandi búsvæði á láglendi um land allt en fágætur á miðhálendinu og kann að vera þar tilfallandi slæðingur frá láglendi; Kjölur, Þjórsárver, Sigalda og Vesturöræfi.

Lífshættir

Birkiskógar og bláberjalyngsmóar eru kjörlendi birkifeta. Hann lifir fyrst og fremst á birki (Betula pubescens) og bláberjalyngi (Vaccinium). Flugtíminn er í fyrri hluta sumars, einkum í júní og fram í júlí, en fiðrildi hafa fundist á tímabilinu frá miðjum maí og allt til fyrstu daga í ágúst. Það heyrir þó til undantekninga að þau sjáist svo seint. Lirfurnar vaxa upp í samanspunnum laufblöðum frá seinni hluta júní og ná fullum vexti er líður á ágúst. Þær púpa sig á jörðinni, gjarnan innan um fallin laufblöð. Birkifeti brúar veturinn á púpustigi.

Almennt

Birkifeti er nokkuð fast bundinn kjörlendi sínu og sést sjaldnast á flögri fjarri því. Af honum eru umtalsverð áraskipti og þegar vel árar verður fjöldinn mikill. Grunur leikur á að birkifeta fari fjölgandi með hlýnandi loftlagi. Lirfurnar verða mikil átvögl þegar þær taka að ná fullum vexti um og upp úr miðjum ágúst. Þar sem mikið er af þeim geta þess sést alvarleg merki á gróðri. Til dæmis bárust af því fregnir í ágúst 2008 að bláberjalyngsbrekkur í Dölum, á Snæfellnesi og staðbundið á Vestfjörðum væru orðnar brúnar yfirlitum. Græni frumuvefur laufblaðanna var gjörsamlega uppétinn og einungis visinn og orpinn æðavefurinn stóð eftir á lyngsprotunum. Þetta endurtók sig á sömu slóðum árið eftir, þ.e. 2009.

Birkifeti (Rheumaptera hastata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Birkifeti (Rheumaptera hastata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |