Túnfeti (Xanthorhoe decoloraria)

Túnfeti - Xanthoria decoloraria
Mynd: Erling Ólafsson
Túnfeti, karldýr. 13 mm. ©EÓ
Túnfeti - Xanthoria decoloraria
Mynd: Erling Ólafsson
Túnfeti, kvendýr. 12 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðlægar slóðum umhverfis norðurhvel. N-Evrópa suður til Póllands, Þýskalands og Bretlandseyja, fjalllendi M-Evrópu, Færeyjar; austur um Síberíu til Kamchatka og Sakhalin; N-Ameríka.

Ísland: Túnfeti finnst um land allt. Hann er algengur á láglendi en sjaldgæfur á miðhálendinu þó hann finnist þar víða.

Lífshættir

Túnfeti finnst í margskonar gróðurlendum en einna algengastur er hann í raklendu graslendi, t.d. við skurði í túnum, einnig í graslendum skógarbotnum. Hann lifir á margskonar plöntum, t.d. maríustakk (Alchemilla vulgaris), blágresi (Geranium sylvaticum), möðrum (Galium), haugarfa (Stellaria media), krossfífli (Senecio vulgaris) og steinbrjótum (Saxifraga) svo dæmi séu tekin. Fiðrildin hafa óvenju langan flugtíma eða frá mánaðamótum maí/júní til loka ágúst en aðaltíminn er í seinni hluta júní og fram eftir júlí. Stöku sinnum sjást túnfetar síðar en þeir kunna að vera af 2. kynslóð. Lirfur vaxa upp síðsumars, leggjast í vetrardvala og púpa sig að honum loknum á vorin.

Almennt

Túnfeti er með algengari fiðrildum hérlendis og flýgur í mestum mæli á kyrrum kvöldum, einnig að degi til og hrekst þá gjarnan upp þegar styggð kemur að honum. Hann er auðþekktur frá öðrum fetum nema helst mýrfeta. Túnfeti er meðalstór feti, framvængir ljósgráir með vel afmörkuðu dekkra grábrúnu belti yfir framvængina miðja. Karlinn er með áberandi fjaðraða fálmara en kvendýrið ekki. Auk þess er kvendýrið oftast daufara á lit. Á framrönd framvængja, nálægt vængendum, má greina tvö strikmerki, nokkurs konar semikommu, sem aðgreinir túnfeta frá mýrfeta (Xanthorhoe designata) en sá síðarnefndi hefur lítinn brúnan ferningslaga blett á sambærilegum stað.

Túnfeti (Xanthorhoe decoloraria) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Túnfeti (Xanthorhoe decoloraria) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |