Asparygla (Agrochola circellaris)

Asparygla - Agrochola circellaris
Mynd: Erling Ólafsson
Asparygla. 17 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Í Evrópu á belti frá Miðjarðarhafslöndum norðanverðum og norður í miðbik Skandinavíu, austur um Rússland til Armeníu og Litlu-Asíu.

Ísland: Sunnan- og suðaustanvert landið frá Hafnarfirði og austur til Egilsstaða, einnig Miðfjörður í Húnavatnssýslu.

Lífshættir

Kjörlendi asparyglu í heimahögum eru blandaðir laufskógar, kjarr og trjágarðar. Lirfur klekjast úr eggjum á vorin og þær vaxa upp frá apríl og fram í júlí er þær púpa sig. Fiðrildin skríða úr púpum í byrjun september og sjást á flugi fram í miðjan október og jafnvel lengur. Þau verpa á þessu tímabili og eggin brúa veturinn til vors. Lirfurnar nærast fyrst á blómknöppum og blómum á álmi (Ulmus glabra), öspum (Populus) og víði (Salix) en síðar á ýmsum tegundum plantna, m.a. túnfíflum (Taraxacum). Asparygla er mikið flökkufiðrildi.

Almennt

Asparygla fannst fyrst hérlendis í seinni hluta september 1953 nær samtímis í Öræfum og á Djúpavogi og næstu dagana fannst álitlegur fjöldi í Öræfum. Þetta er fyrsta skráða ganga af asparyglum til landsins frá Evrópu. Tegundin fannst af og til eftir þetta, en þegar vöktun fiðrilda með ljósgildrum hófst árið 1995 kom í ljós að líklega slæddist hún til landsins á hverju hausti. Fjöldinn hefur þó reynst afar breytilegur. Reyndar var löngum óljóst hvort asparygla tilheyrði í raun landlægu fánunni en ljósgildruveiðarnar benda til hins gagnstæða. Asparyglur hafa fundist hér frá lokum ágúst og fram eftir nóvember, en langflestar hafa veiðst um miðjan september og sýnir brött veiðikúrfan þá svo varla verði um villst að um flækingstegund er að ræða.

Asparygla er auðþekkt, gul eða gulbrún því sem næst einlit, þó yfirleitt með greinanlegum hring- og nýrnablettum á framvæng og dökkum díl í nýrnablettinum.

Asparygla (Agrochola circellaris) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Asparygla (Agrochola circellaris) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |