Garðygla (Agrotis ipsilon)

Garðygla - Agrotis ipsilon
Mynd: Erling Ólafsson
Garðygla, karldýr (einkennandi svört píla á væng), 25 mm. ©EÓ
Garðygla - Agrotis ipsilon
Mynd: Erling Ólafsson

Garðygla, karldýr (fjaðraðir fálmarar), 25 mm. ©EÓ

Garðygla - Agrotis ipsilon
Mynd: Erling Ólafsson

Garðygla, kvendýr (þráðlaga fálmarar), 25 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Um því sem næst mest allan heim, í nágrannalöndum þó ekki norðar en um miðbik Skandinavíu. Uppeldisstöðvar eru þó einkum í suðlægum löndum. Mikil flökkukind sem flýgur langt út fyrir uppeldisstöðvar.

Ísland: Fundin víða á Suðurlandi, frá Reykjavík austur í Suðursveit, einnig á Seyðisfirði.

Lífshættir

Garðyglur hafa fundist hér á landi allt frá mars og fram í seinnihluta október. Langflestar hafa þó fundist á tímabilinu frá miðjum ágúst til loka september sem fellur vel að aðalflugtíma tegundarinnar í nágrannalöndunum. Þó langflest fiðrildanna sem sjást á Norðurlöndum séu talin hafa borist frá suðlægari slóðum þá er víst að tegundin fjölgar sér þar í nokkrum mæli og lifir jafnvel af veturinn á einhverjum þroskastigum. Sama virðist gilda hér á landi. Lirfurnar nærast á fjölda tegunda plantna, halda til á jörðu niðri og púpa sig í spunahjúp í jarðveginum.

Almennt

Garðygla er með algengustu flækingsfiðrildum hér á landi og berst hún hingað árlega, einkum á haustin, en þó mismiklum mæli eftir því hvernig háttar til með meðbyrinn úr suðaustri hverju sinni. Hún er tækifærissinni sem berst úr suðri til norðlægari landa og nær auðveldlega að fjölga sér þar ef hún mætir nógu snemma til þess. Ekki spillir fyrir henni að geta nærst á flestum þeim plöntutegundum sem í boði eru.

Í september 1976 fannst fullþroskuð garðyglulirfa á Kvískerjum í Öræfum og var það fyrsta staðfesting á því að tegundin hefði fjölgað sér hérlendis. Svo virðist sem garðyglan þrauki af veturinn hér á landi töku sinnum. Stundum hefur hennar orðið vart í seinnihluta mars og enn frekar í apríl sem er ekki líklegur tími fyrir garðyglur til að hrekjast hingað með vindum. Ekki er ósennilegt komin séu á kreik fiðrildi sem hafa vetrað hér sig á fullorðinsstigi. Slík eru að sjálfsögðu líkleg til að geta af sér nýja kynslóð. Það er þó öldungis óvíst að þetta gerist á hverju ári en líkurnar aukast með hlýnandi veðurfari.

Garðygla er frekar stór ygla með brúnleita, jafnvel bronslita, framvængi sem oft eru svarbrúnir um miðbikið, en þetta er mjög breytilegt. Utan til á framvæng er einkennandi svartur pílulaga blettur við utanverðan nýrnablettinn svokallaða. Afturvængir eru ljósir innan til en dekkri með jöðrunum. Aftan við höfuðið er bogalaga svört spöng. Fálmarar karldýra eru áberandi fjaðraðir en þeir eru einfaldir, þráðlaga á kvendýrum.

Garðygla (Agrotis ipsilon) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Garðygla (Agrotis ipsilon) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1976. Þrjú flökkufiðrildi tímgast á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 46: 200–208.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |