Dumbygla (Apamea crenata)

Dumbygla - Apamea crenata
Mynd: Erling Ólafsson

Dumbygla (Apamea crenata), ljós. 22 mm. ©EÓ

Dumbygla - Apamea crenata
Mynd: Erling Ólafsson

Dumbygla (Apamea crenata), dökk. 22 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa frá N-Skandinavíu suður til Miðjarðarhafs, austur um Asíu til Kyrrahafs; Færeyjar.

Ísland: Suðurland og Vesturland; frá Miðnesi austur í Hornafjörð, einnig Hvanneyri og Stykkishólmur.

Lífshættir

Dumbygla finnst í allskyns gróðurlendum. Hérlendis hefur hún fundist í mestum fjölda í jaðri skógræktar og í opnu skógarrjóðri. Hún berst gjarnan inn í húsagarða og jafnvel inn um opna glugga að kvöldi til þar sem ljós skín fyrir innan. Flugtími er frá byrjun júní og fram í fyrri hluta ágúst. Lirfurnar nærast á blöðum grasa (Poaceae), þær minnstu reyndar á blómum og óþroskuðum fræjum grasanna. Uppvöxtur þeirra hefst seinni hluta sumars og hálfvaxnar leggjast þær í vetrardvala. Vöxtur heldur svo áfram að vetri loknum og fullvaxnar að vori púpa lirfurnar sig í spunahjúp í jarðveginum innan um rætur grasa.

Almennt

Dumbygla er nýlegur landnemi hér á landi, sem fannst fyrst í Suðurhlíðunum í Reykjavík seint í júlí 2000. Fjórum árum síðar fannst hún aftur á svipuðum slóðum eða í Fossvogi. Báðar komu þær inn í hús. Árið 2007 tók hún að veiðast í ljósgildrur á Mógilsá í Kollafirði og Skógum undir Eyjafjöllum. Úr því fór dumbyglu sífjölgandi, nýir fundarstaðir bættust við og fjölgun varð hröð. Árið 2011 var dumbygla orðin algengust yglutegunda í Skógrækt ríkisins að Mógilsá. Henni hefur því lukkast landnámið einkar vel.

Dumbygla er ýmist mjög dökk og dumbrauð á lit eða ljósari með skrautlegu litmynstri, þar sem dumbrauði liturinn á ríkan þátt. Frambolur er oftast dumbrauður til hliðanna, bæði dökk og ljós eintök, en ljósari eftir bakinu miðju. Fiðrildin slitna nokkuð snemma og verða óásjáleg. Það bendir til þess að þau skríði gjarnan um ofan í þéttum grasgróðri.

Dumbygla (Apamea crenata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Dumbygla (Apamea crenata) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmark Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |