Hrossygla (Apamea exulis)

Hrossygla - Apamea exulis
Mynd: Erling Ólafsson

Hrossygla (Apamea exulis). 20 mm. ©EÓ

Hrossygla – Apamea exulis
Mynd: Erling Ólafsson

Hrossygla (Apamea exulis), lirfa. 35 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Á norðurslóðum og í fjalllendi Evrópu og Asíu; hálendi Skandinavíu og Skotlands, Alpafjöll og Balkanskagi; norðaustanverð N-Ameríka, Grænland. Hrossyglu er skipt í nokkrar undirtegundir og hafa flokkunarfræðingar lengi átt í vandræðum með tegundina. Þess vegna eru upplýsingar um hana í nokkurri óvissu.

Ísland: Um land allt, jafnt láglendi sem hálendi; útbreiddust yglutegunda á miðhálendinu.

Lífshættir

Kjörlendi hrossyglu er einkum í þurru graslendi og valllendi, gjarnan sendnu, einnig á víðiflesjum með grösum. Lífshættir tegundarinnar í nágrannalöndunum eru tiltölulega illa þekktir, en þó ljóst talið að lirfurnar nærist á grösum, einkum neðri hluta stönglanna. Allt bendir til að það taki þær tvö sumur að vaxa upp, því bæði litlar og stórar lirfur finnast samhliða. Vetrardvali fer fram á lirfustigi. Tveggja ára lirfur púpa sig á vorin og fiðrildin skríða svo úr púpum þegar sumrar. Flugtími hefst um miðjan júní og stendur fram í ágúst, með hámarki á miðju sumri.

Almennt

Hrossygla er norðræn tegund sem þrífst hvað best hér á hálendinu og í sveitum í skjóli jökla. Annars er hún frekar lítt áberandi á láglendi þó hún finnst hvarvetna á landinu. Það er því athyglisvert hve mikið er af henni í úteyjum Vestmannaeyja. Það er þekkt að norðrænar tegundir sem búa við stuttan sumartíma taki tvö sumur í uppvöxtinn.

Hrossygla er meðalstór ygla og fjarri því að vera auðgreind frá nokkrum öðrum yglutegundum. Hún er nokkuð breytileg á lit, eins og þær flestar hinar yglurnar, oftast tiltölulega ljósbrún á lit með ljóst yfirbragð, stundum dekkri, með ljósa nýrnabletti og sauma yfir framvængina og dekkri blettum á milli. Stundum þarf að notast við kynfæragreiningar til að staðfesta tegundina.

Hrossygla (Apamea exulis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Hrossygla (Apamea exulis) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |