Stráygla (Apamea remissa)

Stráygla – Apamea remissa
Mynd: Erling Ólafsson

Stráygla (Apamea remissa). 20 mm. ©EÓ

Stráygla – Apamea remissa
Mynd: Erling Ólafsson

Stráygla (Apamea remissa), tvö litarafbrigði. ©EÓ

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, austur um miðbik Asíu til Japans, norðanverð Norður-Ameríka.

Ísland: Suðurland, frá Hveragerði austur til Hornafjarðar.

Lífshættir

Stráygla finnst í margskonar opnu landi, svo og í opnu skóglendi. Lirfurnar nærast á allskyns grastegundum sérstaklega í raklendi. Þær vaxa upp síðsumars, leggjast í vetrardvala, ljúka sennilega uppvextinum að dvalanum loknum og púpa sig snemmsumars. Flugtími fiðrildanna hér á landi er frá byrjun júlí til loka ágúst sem er öllu seinna en á öðrum Norðurlöndum. Til dæmis er flugtíminn frá byrjun júní fram í miðjan júlí í Danmörku, í Finnlandi frá lokum júní til loka júlí.

Almennt

Stráygla fer nokkuð langt norður í Skandinavíu en hún er þó algengari sunnar. Hér á landi er stráygla nýlegur landnemi sem væntanlega hefur borist með vindum frá Evrópu en hún tekur land á Suðausturlandi. Fyrsta stráyglan fannst á Kvískerjum í Öræfum árið 2001. Fjórum árum síðar birtist hún undir Eyjafjöllum. Síðan hafa nýir fundarstaðir bæst við hægt og bítandi syðst á landinu, frá Hveragerði í vestri austur í Hornafjörð, og hefur tegundinni farið fjölgandi samtímis. Hún lætur þó lítið fyrir sér fara. Öll fiðrildin hafa komið í ljósgildrur sem gerðar eru til fiðrildaveiða. Aðeins eitt eintak hefur fundist á annan hátt en það flaug inn í hús í Hveragerði.

Stráygla (20 mm, vænghaf 36 mm) er afar venjuleg ygla í útliti sem vekur á sér litla athygli. Reyndar þarf gott skynbragð til að aðgreina hana frá ýmsum öðrum yglutegundum. Ekki hjálpar að hún nokkuð breytileg á lit. Grunnlitur vængja er oftast brúnn, blettir og saumar drapplitaðir. Stundum er vænglitur ljósari, drapplitaðir fletir meira ráðandi. Mynstur helst þó stöðugt en verður oft ógreinilegt vegna slits á seinni hluta flugtímans, ekki síst út til vængenda þar sem tryggasta greiningareinkennið er að finna. Ljós saumur næstur vængenda hlykkjast á einkennandi hátt og myndar djúpt W- eða M-mynstur. Frambolur er dekkri út til hliðanna en um miðju, að því leyti áþekkur dumbyglu (Apamea crenata). Fremst á honum, aftan við haus, er grannur svartur baugur líkt og á hringyglu (Mniotype adusta).

Stráygla – Apamea remissa
Stráygla (Apamea remissa) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |