Bergygla (Standfussiana lucernea)

Gráygla - Rhyacia quadrangula
Mynd: Erling Ólafsson
Bergygla, par að makast. 20 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa norður til miðbiks Skandinavíu og suður í fjalllendi S-Evrópu, austur í Kákasus og um Litlu-Asíu til Írans; Færeyjar.

Ísland: Fáeinir fundarstaðir á sunnan- og suðaustanverðu landinu, Rauðafell og Skógar undir Eyjafjöllum, Skaftafell, Kvísker og Breiðamerkurfjall í Öræfum, Esjufjöll í Breiðamerkurjökli, Djúpivogur.

Lífshættir

Kjörlendi á bergygla í grýttu, lítt grónu landi og í gljúfurbrekkum. Í nágrannalöndunum finnst hún einkum á klöppum á strandsvæðum. Hún flýgur frá lokum júlí fram í byrjun september, mest um miðbik ágúst, bæði að degi til og um nætur. Lirfurnar nærast á mörgum plöntutegundum, m.a. grösum (Poaceae), steinbrjótum (Saxifraga), hnoðrum (Sedum) og bláklukkum (Campanula). Þær leggjast smávaxnar í vetrardvala og halda vextinum áfram að vetri liðnum.

Almennt

Bergygla er afar fágæt hér á landi. Hún var lengi vel einungis þekkt frá Kvískerjum í Öræfum, en fundarstöðum fjölgaði þegar ljósgildrur voru teknar í notkun við fiðrildarannsóknir í lok 20. aldar. Hún er augljóslega fáliðuð og sést afar sjaldan. Þrátt fyrir að hafa komið í ljósgildrur þá er bergygla almennt ekki talin gjörn á að sækja í ljós.

Bergygla er nokkuð auðþekkt, nær einlit steingrá, með mjúkri áferð og frekar breiða vængi. Hún líkist einungis gráyglu (Rhyacia quadracia) og er nauðsynlegt að hafa það í huga þegar steingráar yglur ber fyrir augu.

Bergygla (Standfussiana lucernea) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Bergygla (Standfussiana lucernea) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Eliasson, C. 1992. A contribution to the knowledge of the Icelandic noctuid fauna (coll. Lindroth, Lepidoptera, Noctuidae) with new aspects on passive dispersal by ice-rafting. Ent. Tidskr. 113: 25–35.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |