Jarðygla (Diarsia mendica)

Jarðygla - Diarsia mendica
Mynd: Erling Ólafsson
Jarðygla, 17 mm. ©EÓ
Jarðygla - Diarsia mendica
Mynd: Erling Ólafsson
Jarðygla, 17 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa frá nyrstu héruðum suður til N-Spánar, N-Ítalíu og Balkanskaga, Færeyjar; austur um N- og M-Asíu; Síbería, Armenía, Íran.

Ísland: Mjög algeng á láglendi um land allt sjaldgæf á miðhálendinu; Þjórsárver, Vesturöræfi.

Lífshættir

Jarðygla finnst í flestum gerðum gróskumikils þurrlendis, valllendi og blómlendi, móum og kjarrlendi. Lirfurnar nærast á fjölda plöntutegunda, blómplantna, runnum og lauftrjám, jafnvel lerki og öðrum barrtrjám. Flugtími jarðyglu er langur. Fyrstu yglurnar fara að sjást viku af júní, flugtíminn er í hámarki mestallan júlí og stöku jarðyglur sjást allt fram í miðjan september. Lirfurnar vaxa upp frá júlí og fram á haust, leggjast í dvala og ljúka vextinum að vetri liðnum.

Almennt

Ekki er fjarri lagi að telja jarðyglu algengustu ygluna hérlendis. Hún er sú tegund sem kemur í fiðrildagildrur í afgerandi mestum fjölda. Jarðygla hefur verið staðin að því að valda skaða á gróðri. Má þar sem dæmi nefna skaða sem hún olli á náttúrulegum lyng- og runnagróðri í Suður-Þingeyjarsýslu 1975 og meiriháttar skemmdir á rússalerki (Larix sibirica) í plantekrum á Fljótsdalshéraði 1996 og 1997.

Jarðygla er auðþekkt á hlýjum, rauðbrúnum lit sínum. Liturinn er nokkuð mismunandi eftir einstaklingum en hver og ein jarðygla er einsleit, rauðbrún, ljósrauðbrún, dökkrauðbrún, með greinilegum hring- og nýrnablettum á framvæng. Lirfan er auðþekkt og minnir litmynstur á baki hennar einna helst á afturdekk dráttarvélar.

Jarðygla (Diarsia mendica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Jarðygla (Diarsia mendica) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Brynjólfur Sigurjónsson 1997. Jarðyglan 1997. Verkefni unnið sumarið 1997 fyrir Héraðsskóga og Skógrækt ríkisins. 13 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Guðmundur Halldórsson, Jóhann F. Þórhallsson & Sigrún Sigurjónsdóttir 1997. Úr dagbók jarðyglu. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1997: 119–123.

Helgi Hallgrímsson 1977. Gróðurskemmdir á heiðum S-Þing. 1975. Týli 7: 13–15.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |