Ertuygla (Ceramica pisi)

Útbreiðsla

Evrasía; gjörvöll Evrópa nema allra syðst, t.d. óþekkt á Spáni og í Grikklandi, austur um M-Asíu til Japans.

Ísland: Sunnanvert landið frá Borgarfirði austur í Hornafjörð, einnig Akureyri.

Lífshættir

Ertuygla finnst í margskonar gróðurlendum þurrum og deiglendum. Lirfurnar éta ýmsar plöntur en kjósa tegundir af ertublómaætt öðrum fremur, m.a. alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis). Ertuyglur brúa veturinn á púpustigi og skríða úr púpum snemma á vorin, þær fyrstu þegar fyrstu dagana í maí. Fiðrildin eru mest á ferðinni í maí og júní, verpa þá eggjum sínum, en hafa sést allt fram í fyrstu viku ágúst sem þó er undantekning. Lirfurnar ná fullum vexti í ágúst og púpa sig í jörðu.

Almennt

Ertuygla er tegund sem fer fjölgandi og má sennilega rekja það til hlýnandi loftslags. Hún var lengstum tiltölulega fáséð en henni hefur fjölgað verulega um sunnanvert landið. Búast má við að hún fari að auka við útbreiðslusvæðið til norðurs. Á góðviðriskvöldum á vorin má oft sjá hraðfleygar ertuyglur skjótast framhjá og út í buskann. Lirfurnar eru mjög áberandi þegar þær nálgast fullan vöxt síðsumars. Þær hafa lítið fyrir því að fela sig þar sem þær skríða berskjaldaðar á jörðinni eða upp í gróðrinum sem þær eru að éta. Þær eru auðþekktar, oftast nær svartar, sjaldnar grænleitar, með fjórum beinum skærgulum og afar áberandi röndum langsum eftir bolnum. Litmynstrið gæti átt að gefa ræningjum til kynna að ekki sé um fýsilegan matarbita að ræða. Stundum verður svo mikið af lirfum í lúpínubreiðum að þær ná að éta lauf plantnanna upp til agna. Þessi atgangur á sér stað um það bil eða eftir að lúpínurnar hafa þroskað fræ. Því eru ertuyglur ekki líklegar til að duga vel í baráttu gegn framgangi lúpínu nema helst með því að opna sólarljósi greiðan aðgang að undirgróðri sem gæti nýtt sér orkugjafann til vaxtarkipps í ágúst og þrengja þar með að lúpínunni. Fiðrildin eru nokkuð breytileg á lit, oftast grábrún að grunni til. Stundum eru glögg litaskil um miðbikið, framhlutinn ljósari grár, afturhlutinn dekkri grábrúnn, en alltaf má þekkja þau sem ertuyglu á hvítum bletti á afturhorni framvængs. Þegar hún situr með aðfellda vængi leggjast þessir blettir á hvorum væng saman.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009.

Biota

Tegund (Species)
Ertuygla (Ceramica pisi)