Úlfygla (Eurois occulta)

Úlfygla - Eurois occulta
Mynd: Erling Ólafsson
Úlfygla. 30 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðlægar slóðir umhverfis norðurhvel. Í Evrópu frá nyrstu slóðum suður til Alpafjalla og annars fjalllendis í sunnanverðri álfunni frá Spáni austur til Búlgaríu, N- og M-Asía, norðanverð N-Ameríka, Kanada stranda á milli, Grænland, Færeyjar.

Ísland: Fáeinir fundarstaðir á Suðurlandi frá Reykjavík austur í Öræfi, einnig fundin í Eyjafirði.

Lífshættir

Lítið er vitað um lífshætti úlfyglu hér á landi enda fágæt. Gögn benda til þess að flugtími hefjist snemma í júlí og vari til loka ágúst. Lirfurnar taka að vaxa upp síðsumars og leggjast í dvala gjarnan uppi í trjám og runnum. Þær halda svo uppvextinum áfram næsta vor og púpa sig fullþroska í mosasverði. Fæðuval er fjölbreytt, bláberjalyng (Vaccinium), birki (Betula), víðir (Salix) og ýmsar fleiri tegundir. Í Skotlandi er mjaðarlyng eða pors (Myrica gale) aðal fæðuplantan en hún vex ekki hér.

Almennt

Úlfygla er afar fágæt hér á landi en telst án vafa landlæg. Hún kann þó einnig að vera flækingur. Í Færeyjum er hún talin bæði landlæg og flækingur og eru flækingarnir sagðir ljósari á lit. Það er undarlegt að úlfygla skuli ekki vera algengari hér en raun ber vitni því á sunnanverðu Grænlandi er hún algeng og veldur stundum umtalsverðum skemmdum á gróðri.

Úlfygla er ein af stærstu yglunum hér á landi en hennar verður þó lítið vart. Það er helst að hún veiðist í ljósgildrur. Hún er úlfgrá á lit, ber íslenskt heiti í samræmi við það, er í ýmsum gráum tónum, allt frá ljósgráum upp í dökkgráan. Hringmerkið á framvæng er venjulega hvítt eða gráhvítt og nýrnamerkið utar á vængnum gjarnan ljósgrátt með hvítum jaðri. Afturvængir eru grábrúnir.

Úlfygla (Eurois occulta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Úlfygla (Eurois occulta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wikipedia. Eurois occulta. http://en.wikipedia.org/wiki/Eurois_occulta [skoðað 8.2.2012]

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |