Brandygla (Euxoa ochrogaster)

Brandygla - Euxoa ochrogaster
Mynd: Erling Ólafsson
Brandygla, lengd aftur á vængenda 20 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Miðbik Rússlands austur til Kamchatka og Japans, norðanverð N-Ameríka frá austri til vesturs. Afar fágæt á Norðurlöndum, fáein eintök fundin í Svíþjóð í lok 19. aldar og Finnlandi og áður finnsku Karelíu1931–1935.

Ísland: Um land allt en algengust á landinu suðaustanverðu. Fáeinir fundarstaðir á miðhálendinu.

Lífshættir

Brandygla flýgur frá byrjun júlí til loka september. Mestur er fjöldinn um miðjan ágúst. Hún finnst í hvers konar þurrlendi, ekki síst í sendnu landi. Hún verpir síðsumars, eggin klekjast út næsta vor og lirfurnar vaxa upp fyrri hluta sumars. Þær halda sig efst í jarðveginum en koma upp á yfirborð einkum að næturlagi til að nærast. Þær nærast á margskonar plöntum, á rótum, laufblöðum og stönglum. Þær hafa m.a. fundist á græðisúru (Plantago major) og lirfur hafa sést hakka í sig klóelftingu (Equisetum arvense) þegar hún vex upp úr jarðvegi óhörðnuð. Óvenjulegt er að skordýr leggi sér elftingar til munns. Einnig hefur brandygla lagst á kartöflugrös (Solanum tuberosum) í uppvexti og alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis) í nýgræðum.

Almennt

Það eru mikil áraskipti af brandyglu. Í sumum árum birtist umtalsverður fjöldi fiðrilda sem svo dettur verulega niður á milli. Þetta verður ekki útskýrt en sníkjuvespur gætu átt þar nokkurn þátt. Grunur leikur á að sníkjuvespan Ophion nigricans sækist eftir lirfum brandyglunnar þar sem þær athafna sig berskjaldaðar og aðgengilegar á yfirborði jarðvegs. Þegar mikið er af brandyglum kunna lirfurnar að valda skaða á gróðri. Slíkt hefur gerst á kartöfluekrum í Þykkvabæ og nýsáningum alaskalúpínu á Hafnarsandi við Þorlákshöfn.

Brandygla er með afar skýru litmynstri á framvængjum, með ljósa hring- og nýrnabletti á dökkum fleti, og minna litirnir gjarnan á dökkbröndóttan kött eða kú. Af því dregur tegundin íslenska heitið. Það er þó nokkuð breytilegt hve dökk fiðrildin eru en mynstrið dylst sjaldnast. Lirfurnar eru mjög dökkar, grábrúnar eftir baki, með dekkri hliðarbeltum og mjórri ljósri hliðarrák. Íslenskar brandyglur eru mjög eftirsóttar af fiðrildasöfnurum í nágrannalöndunum enda ómögulegt að nálgast þær þar um slóðir.

Brandygla (Euxoa ochrogaster) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Brandygla (Euxoa ochrogaster) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Guðmundur Halldórsson. Brandygla - vaxandi vandamál. Landgræðsla ríkisins. http://landbunadur.rala.is/landbunadur/wglgr.nsf/key2/lann74he6x.html [skoðað 11.12.2009]

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Sigurgeir Ólafsson 1988. Brandygla í kartöflugörðum. Freyr 6, mars 1988, bls. 124–141.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |