Gammaygla (Autographa gamma)

Útbreiðsla

Meginheimkynni gammayglu eru í Evrópu og Asíu en hún hefur fundist víðar sökum einstakrar flökkunáttúru. Uppeldisstöðvar í Evrópu eru einkum í Miðjarðarhafslöndum en vegna flökkunáttúrunnar berst hún á ári hverju norður til nyrstu héraða og út til eyja og eyjaklasa allt frá Kanaríeyjum norður til Færeyja, Íslands og Grænlands.

Ísland: Hefur fundist á láglendi um land allt, í mestum mæli á sunnan- og austanverðu landinu, frá Reykjanesskaga austur á Fljótsdalshérað. Hefur einnig fundist á skerjum inni á Breiðamerkurjökli.

Lífshættir

Flugtími er óvenjulangur en fiðrildin fljúga frá lokum maí og fram í nóvember, í mestum fjölda þó frá lokum júlí og fram í byrjun september. Lirfurnar vaxa flestar upp frá júlí og allt fram í október. Fullvaxnar púpa þær sig í losaralegum spunahjúp á milli samanspunninna laufblaða á fóðurplöntunni. Þær lifa á mörgum tegundum jurtkenndra plantna. Það er erfitt að segja til um fjölda kynslóða ári sem kann að fara eftir aðstæðum. Gammayglur fara stundum á flakk norður eftir Evrópu í gríðarlegum fjölda einkum síðsumars. Þær sem eru fyrr á ferðinni verpa gjarnan þar sem þær lenda og ný kynslóð lítur þar dagsins ljós er haustar. Talið er afar ólíklegt að þær geti lifað af vetur á norðlægum slóðum.

Almennt

Gammaygla er eitt algengasta flækingsfiðrildið hér á landi. Hún berst hingað á hverju sumri en í mismiklum fjölda. Stundum kemur umtalsverður fjöldi síðsumars. Fyrstu gammayglurnar hafa fundist í seinnihluta maí en þær sem koma snemma verpa gjarnan og ná að geta af sér nýja kynslóð síðsumars. Nokkur dæmi eru þessu til staðfestingar.

Gammaygla er auðþekkt frá flestum öðrum yglum. Á gráleitum framvængjum er skýrt ljóst tákn sem er nánast eins og gríski bókstafurinn gamma og dregur tegundin af því heiti á flestum tungumálum. Lirfan er líka tiltölulega auðþekkt, ljósgræn með tveim fínum hliðlægum ljósum línum langsum eftir bakinu. Auk þess er hún aðeins með sex gangvörtur á afturbolnum, færri en aðrar yglutegundir hérlendis, og bolurinn mjókkar fram að óvenju litlu höfði.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1976. Þrjú flökkufiðrildi tímgast á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 46: 200–208.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Kaaber, S. 1997. Iagtagelser under tre sommerfulgetræk over Færøerne i 1996. Ent. Meddr 65:109–118.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 20. janúar 2010.

Biota

Tegund (Species)
Gammaygla (Autographa gamma)