Grasygla (Cerapteryx graminis)

Útbreiðsla

Evrópa frá S-Evrópulöndum norðanverðum, Spáni, Ítalíu og Balkanskagalöndum, til nyrstu héraða Skandinavíu, austur um Rússland, Síberíu og M-Asíu til Kyrrahafs; Færeyjar. Hefur numið land vestan hafs á Nýjasjálandi.

Ísland: Um land allt, algeng á láglendi en sjaldgæf á miðhálendinu.

Lífshættir

Graslendi ýmiskonar eru kjörlendi grasyglu, úthagi og ræktuð tún, einkum gömul tún í vanhirðu. Flugtími er langur eða frá seinnihluta júní og fram í september með hámarki um mánaðamótin júlí/ágúst. Lirfurnar vaxa upp á vorin og til loka júní og púpa sig þá í spunahjúp innan um grasrætur. Þær nærast á rótum grasa, einkum sveifgrasa (Deschampsia) og vingla (Festuca). Eggin brúa veturinn.

Almennt

Grasygla er kunn hér á landi frá fornu fari og er hennar margoft getið í annálum og öðrum skrifum allt aftur til upphafs 17. aldar, eftir því sem rakið hefur verið. Lengstum var til tegundarinnar vitnað undir heitinu grasormur og síðar grasfiðrildi, enda voru fyrst og fremst lirfurnar forfeðrum okkar kunnar fyrr á öldum. Það var eftir þeim tekið því þær gátu orðið til óþurftar og skaða í túnskikum og beitilöndum, meira að segja svo að um raunverulegar plágur var við að etja. Stundum var talað um grasmaðksár í vissum sveitum. Yfirleitt var atgangur maðkanna staðbundinn og það breytilegt eftir árum hvar mest hann herjaði hverju sinni. Til þess var tekið að áhrifasvæði eldfjalla urðu einna verst úti.

Atburðir af þessu tagi gerast enn þó ekki verði afleiðingar eins alvarlegar og fyrr á öldum, þegar nytjalönd kotbænda urðu fyrir stórfelldum sköðum. Nú á tímum eru tún mun ræktarlegri en fyrrum, en grasmaðkur herjar síður á tún í góðri umhirðu en þau hin lakari. Frá seinni árum má tilgreina vorið 1996, þegar grasmaðkur herjaði af krafti undir Eyjafjöllum og víðar á Suðurlandi. Um það var fjallað í fjölmiðlum. Þá kom hins vegar ekki fram að áhrif grasmaðksbeitar var einna alvarlegust í Meðallandi. Bóndi sem höfundur pistils þessa átti spjall við þar í sveit, þegar mest allt gras í úthaga var fallið, hafði litlar áhyggjur því reynslan væri sú, að þegar maðkurinn er fullvaxinn er líða tekur á júní og hefur púpað sig grænkar gras og sprettur sem aldrei fyrr vegna áburðargjafar af úrgangi maðkanna. Bóndinn sá hafði sannarlega rétt fyrir sér. Hagar í Meðallandi voru hvanngrænir síðsumars 1996.

Hér áður fyrr voru ormarnir alls ekki tengdir fiðrildunum sem flögruðu í graslendinu í kjölfar plágunnar. Þeir voru jafnvel taldir koma af himnum ofan, eins og fram kemur í ljóðlínum úr kvæðinu Árgali eftir klerkinn Ólaf Einarsson sem uppi var í kringum aldamótin 1700:

Ormum rigndu himnahallir

hauðið yfir eins og snjó

rætur grasa rifu þeir allir.

Grasygla er með algengari yglutegundum hér á landi en af henni eru þó áraskipti. Hún er auðþekkt frá öðrum tegundum. Að stærð er hún með þeim smávaxnari. Teikningar á framvængjum eru einkennandi. Á drappleitum vængjunum eru ljósir nýrnablettir og strik og belti með dökkum kámum á milli og dökku belti næst vængenda sem er sundurskorið með ljósum vængæðunum sem liggja út að jaðrinum. Karldýrið er með áberandi fjaðraða fálmara. Lirfan er grænleit á lit með mjóum, ljósum röndum langsum eftir bolnum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Geir Gígja 1961. Grasfiðrildi og grasmaðkur á Íslandi. Atvinnudeild Háskólans, Rit Landbúnaðardeildar, B-flokkur, nr. 14, Reykjavík. 84 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 9. mars 2011.

Biota

Tegund (Species)
Grasygla (Cerapteryx graminis)