Súruygla (Hydraecia micacea)

Súruygla - Hydraecia micacea
Mynd: Erling Ólafsson
Súruygla. 22 mm. ©EÓ
Súruygla - Hydraecia micacea
Mynd: Erling Ólafsson
Súruygla. 22 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa frá norðri suður til miðbiks Ítalíu og norðanverðs Balkanskaga, austur eftir N- og M-Asíu um NA-Kína til Kamchatka og Japans; N-Ameríka; flækingur í Færeyjum.

Ísland: Fágætur flækingur; Kvísker í Öræfum, Rauðafell undir Eyjafjöllum.

Lífshættir

Súruygla finnst við fjölbreytileg lífsskilyrði. Lirfur vaxa upp snemma sumars í maí og júní og nærast á rótum og rótarhálsi fjölmargra óskyldra plöntutegunda. Nýklaktar lirfur éta þó fyrst laufblöð en færa sig svo niður á ræturnar. Súrur (Rumex) eru í mestum metum en lirfurnar leggjast einnig á ýmsar nytjaplöntur, t.d. humal (Humulus) og kartöflur (Solanum), og geta valdið verulegum skaða í ræktun þeirra. Fullvaxnar púpa lirfurnar sig við rætur fæðuplantnanna. Flugtími í nágrannalöndum okkar er frá lokum júlí fram í byrjun október. Eggin brúa veturinn. Súruygla hefur fundist hér á landi frá viku af ágúst fram í miðjan september.

Almennt

Súruygla fór ekki að finnast hér á landi fyrr en farið var að beita ljósgildrum til söfnunar fiðrilda. Sú fyrsta fannst á Kvískerjum í ágúst 1997 og hefur tegundin fundist þar af og til síðan, aðeins í ljósgildrum. Í september 2006 kom súruygla í ljósgildru undir Eyjafjöllum og er það eina tilvikið utan Kvískerja. Tegundin hefur fundist í Færeyjum á sama tímabili og hérlendis og ekki er loku fyrir það skotið að þar þrífist lítill stofn. Ekki er ólíklegt að súruygla nemi hér land í náinni framtíð með hlýnandi loftslagi.

Súruygla ermeðalstór og falleg ygla. Þó litirnir séu ekki fjölbreytilegir þá er yglan fallega mynstruð í misdökkum ryðrauðum litatónum. Nokkur breytileiki er milli einstaklinga, þ.e. hve dökkir þeir eru. Yglan hefur áberandi ryðrauðan makka á frambol. Yfir miðjan framvæng er dökkleitur bekkur með ljósari hringbletti og nýrnabletti sem eru skýrt markaðir með dökkum kanti. Dekkri miðbekkurinn er skýrt afmarkaður frá mun ljósari vængenda.

Súruygla (Hydraecia micacea) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Súruygla (Hydraecia micacea) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmark Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Šedivý, J., P. Born & J. Vostrel 2005. Harmful occurrence of Rosy Rustic Moth (Hydraecia micacea) (Noctuidae: Lepidoptera) on hop in the Czech Republic. Plant Protect. Sci. 41: 150–157.

UKmoths. Rosy Rustic Hydraecia micacea. http://ukmoths.org.uk/show.php?id=208 [skoðað 15.2.2012]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |