Punktygla (Mythimna unipuncta)

Punktygla - Mythimna unipuncta
Mynd: Erling Ólafsson
Punktygla. 22 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Víða um heim. Punktygla á heimkynni í S-Evrópu. Norðan Pýreneafjalla, Alpanna og Karpatafjalla er hún flækingur, en þó grunuð um að lifa á Bretlandseyjum. Hún er flökkukind sem berst reglulega frá Miðjarðarhafslöndum norður eftir álfunni allt til Danmerkur, Noregs og Færeyja. Utan Evrópu er punktygla algeng m.a. í S- og A-Asíu, Ástralíu, á Nýja-Sjálandi og í Ameríku.

Ísland: Hefur fundist á fáeinum stöðum allra syðst á landinu; Hafnarfjörður, Fljótshlíð, Eyjafjöll, Öræfi og Suðursveit.

Lífshættir

Flugtími punktyglu í S-Evrópu er frá apríl til nóvember og þar lifir hún af vetur á lirfustigi. Hún nærist á ýmsum tegundum grasa (Poaceae). Á haustin fljúga punktyglur í nokkrum mæli norður á bóginn til landa í norðanverðri álfunni.

Almennt

Punktygla er fágætur flækingur hérlendis. Hún fannst fyrst á Kvískerjum í Öræfum í október 1959. Næst fannst hún á sama stað ekki fyrr en 1996 en fjórum sinnum síðan til 2007. Á þessum árum bættust aðrir fundarstaðir við. Punktyglur hafa fundist hér síðsumars og fram á haust, frá miðjum ágúst til loka október. Fjölgun tilvika tengist því að frá og með 1995 var farið að vakta hér fiðrildi með ljósgildruveiðum, en öll eintökin þessi seinni ár hafa veiðst í slíkar gildrur. Í Færeyjum höfðu punktyglur fundist sex sinnum til ársins 2006.

Punktygla er meðalstór ygla og auðþekkt. Hún er gul á lit með nánast ógreinanlega hring- og nýrnabletti á framvæng en einkennandi hvítan punkt í stað nýrnabletts, einnig dökkt skástrik út undir vænghorni.

Punktygla (Mythimna unipuncta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Punktygla (Mythimna unipuncta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Kaaber, S., P. Gjelstrup, D. Bloch & J.-K. Jensen 1994. Invasion af admiralen (Vanessa atalanta L.) 0g andre sommerfugle på Færørne i 1992. Fróðskaparrit 41. bók: 125–149.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Jensen, J.-K. % H.E. Sivertsen 2007. Nye og jældne fund af sommerfugle på Færøerne 2005-2006. Lepidoptera bind IX (3): 96–102.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |