Gulygla (Noctua pronuba)

Gulygla - Noctua pronuba
Mynd: Erling Ólafsson

Gulygla (Noctua pronuba), 28 mm. ©EÓ

Gulygla - Noctua pronuba
Mynd: Erling Ólafsson

Gulygla (Noctua pronuba), 28 mm. ©EÓ

Gulygla - Noctua pronuba
Mynd: Erling Ólafsson

Gulygla (safneintak), vænghaf 53 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa norður um miðbik Skandinavíu, suður til N-Afríku, austur um Rússland til Kasakhstan og Miðausturlanda; Færeyjar.

Ísland: Á láglendi víða um land nema ófundin á Vestfjarðakjálka og vestanverðu Norðurlandi, algengust syðst á landinu.

Lífshættir

Gulygla finnst við fjölbreytilegar aðstæður, flýgur ötullega um og hafnar víða. Hún virðist þó laðast að jarðhita, bæði þar sem ylrækt er stunduð og öðrum jarðhitasvæðum. Flugtími fiðrildanna er langur, allt frá seinnihluta maí fram í miðjan október, langalgengust síðsumars og á haustin, á tímabilinu frá viku af ágúst fram í byrjun október. Einnig hafa gulyglur fundist að vetrarlagi eftir að hafa borist til landsins með varningi. Lirfur hafa fundist við jarðhita. Þær nærast á mörgum mismunandi plöntutegundum, vaxa upp síðsumars fram á haust, leggjast í vetrardvala, halda vexti áfram að honum loknum og púpa sig.

Almennt

Gulygla er landlæg hér á landi og hefur henni farið fjölgandi í kjölfar hlýnandi loftslags á seinni árum. Þó eru af henni áraskipti. Auk þess er nokkuð ljóst að hún berst til landsins með vindum á haustin eins og fleiri tegundir fiðrilda. Það ber ekki mikið á henni því hún hefur hægt um sig í dagsbirtu en fer á flug er skyggir. Þá flýgur hún gjarnan á ljós og berst stundum inn um glugga þar sem ljós logar fyrir innan.

Gulygla er með stærstu fiðrildum og þar með stærstu skordýrum hér á landi. Hún er auðþekkt á stærðinni og sterkgulum afturvængjum sem hafa dökkt belti með afturjaðri. Þegar fiðrildið situr með aðfellda vængi hverfa einkennandi afturvængirnir alveg undir framvængina sem eru breytilegir á lit. Framvængirnir eru ýmist rauðbrúnir, brúnir eða grábrúnir, með ljósum hringbletti en dökkum nýrnabletti og minna svörtu merki nær framhorni, stundum nær einlitir, stundum með breytilegu mynstri í misdökkum brúnum litum.

Gulygla (Noctua pronuba) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Gulygla (Noctua pronuba) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |