Skrautygla (Phlogophora meticulosa)

Skrautygla - Phlogophora meticulosa
Mynd: Erling Ólafsson
Skrautygla. 29 mm. ©EÓ
Skrautygla - Phlogophora meticulosa
Mynd: Erling Ólafsson
Skrautygla. 29 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa norður til sunnanverðrar Skandinavíu og S-Finnlands, suður til N-Afríku, austur um Rússland til Kákasus og suður til Litlu-Asíu.

Ísland: Fundin á láglendi í öllum landshlutum nema á Vestfjarðakjálka, mjög víða á sunnanverðu landinu, frá Snæfellsnesi og austur á Firði en fáfundin á Norðurlandi.

Lífshættir

Í heimahögum leggst skrautygla í vetrardvala ýmist sem lirfa eða fullorðin og fer það eftir loftslaginu þar sem hún lifir. Einnig virðist það breytilegt hve margar kynslóðir þroskast árlega. Í Danmörku er talið að kynslóðir séu jafnvel tvær á ári. Nyrst á útbreiðslusvæðinu er að líkindum bara um eina kynslóð að ræða. Yglurnar verpa að vetrardvala afloknum, lirfur vaxa upp yfir hásumarið og púpa sig síðsumars. Ný kynslóð fullorðinna skríður þá úr púpum og leggst í dvala. Skrautygla nærist á fjölmörgum jurtkenndum plöntum.

Almennt

Skrautygla er mikil flökkukind í Mið- og S-Evrópu. Fjölliðuð haustkynslóð leggst gjarnan í langferðir og berst þá m.a. út yfir Atlantshaf til Færeyja og Íslands. Tegundin sést hér á hverju ári, í mismiklum mæli þó, stundum umtalsverður fjöldi. Slík fjöldagengd hingað til lands vitnaðist fyrst haustið 1959 í Öræfum.

Á fyrri hluta árs hafa skrautyglur fundist hér frá miðjum janúar og fram eftir maí. Þegar þær berast til landsins á vorin verpa þær gjarnan, en æxlun varð fyrst staðfest hér árið 1976 er fjölmargar lirfur fundust upp úr miðjum ágúst í garðinum að Kvískerjum í Öræfum. Flestar voru að éta fjallakornblóm (Centaurea montana) og venusvagn (Aconitum napellus). Vorið 2004 fundust allnokkrar skrautyglur sem grunur lék á að hafi verið að vakna eftir vetrardvala hérlendis. Sumarið sem fylgdi fundust lirfur í birkiskógi í Skorradal. Síðan hafa fengist fleiri vísbendingar um að tegundin sé farin að festa sig í sessi hér með hlýnandi loftslagi. Fullorðin skrautygla hefur aðeins einu sinni fundist hér á miðju sumri en þær sjást að öllu jöfnu frá miðjum ágúst og fram eftir nóvember, langsamlega flestar um miðjan október.

Skrautygla frekar stór ygla, einkar falleg og engri annarri lík, guldrapp með einkennandi gulbrúnu og drappleitu hringmynstri á framvæng, minnir á visnað laufblað og hringmynstrið á skorinn agatstein. Á frambol eru þrjú áberandi hárahorn og áberandi brot er langsum eftir aðfelldum framvæng.

Skrautygla (Phlogophora meticulosa) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Skrautygla (Phlogophora meticulosa) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1976. Þrjú flökkufiðrildi tímgast á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 46: 200–208.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmark Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |