Kjarrygla (Xylena vetusta)

Kjarrygla - Xylena vetusta
Mynd: Erling Ólafsson
Kjarrygla. 30 mm. ©EÓ

Útbreiðsla

Evrópa frá Miðjarðarhafi til N-Skandinavíu, Rússland og austur um miðbik Síberíu, norðanverð N-Ameríka; flækingur í Færeyjum.

Ísland: Nokkrir fundarstaðir á sunnanverðu landinu frá Mosfellsbæ austur í Suðursveit; auk þess Hvammstangi á Norðurlandi, Egilsstaðir og Reyðarfjörður á Austurlandi.

Lífshættir

Kjarrygla er það fágæt hér á landi að litlar upplýsingar hafa fengist um lífshætti hennar hér. Tegundin hefur þó einkum fundist í skóg- og kjarrlendi eða í húsagörðum. Það samræmist vel kjörlendi hennar í nágrannalöndunum. Flugtími kjarryglu er á haustin, frá byrjun september og fram í miðjan nóvember. Þá leggjast fiðrildin í vetrardvala og fara aftur á stjá um miðjan apríl til að verpa. Uppvöxtur lirfa hefst í maí og stendur fram í júlí. Þær nærast á laufblöðum trjáa og runna af ýmsu tagi, birki (Betula) og víði (Salix), einnig lágvaxnari gróðri eins og störum (Carex) og smára (Trifolium). Þær púpa sig síðsumars og klekjast á haustin.

Almennt

Kjarrygla er mjög fágæt hér á landi. Óvissa hefur ríkt um það hvort hún lifi hér á landi en komi hingað eingöngu sem flækingur frá Evrópu eins og í Færeyjum. Ljósgildruveiðar benda þó til þess að um íslenska tegund sé að ræða, sem lifir hér yfir vetur. Þó er ekki ósennilegt að kjarrygla sé beggja blands, þ.e. bæði íslensk og flækingur.

Kjarrygla er með stærstu fiðrildum sem finnast hér á landi. Hún er verulega frábrugðin öðrum yglutegundum og auðþekkt frá þeim bæði á lit og formi aðfelldra vængja. Þegar yglan situr er hún breiðust yfir frambolinn, vængirnir liggja mjög þétt saman þannig að fiðrildið mjókkar jafnt og þétt aftur. Kjarrygla skrýðist sterkum litum, frambolur dökkbrúnn eða dökkdumbrauður, framvængir með mynstri af misdökkum, brúnum, ryðrauðum og gulbrúnum litum og áberandi dökkum nýrnabletti. Afturvængir nær einlitir gul- eða grábrúnir. Kjarrygla er mjög samlit trjáberki og formið líkist kvisti eða greinarstubbi. Hún er því ekki auðfundin í skóginum.

Kjarryglu verður einungis ruglað við eina náskylda tegund, þ.e. kvistyglu (Xylena exsoleta). Staða kvistyglu hér er öllu óljósari, er mun fáséðari og hefur heldur suðlægari útbreiðslu í Evrópu. Að öllum líkindum birtist hún hér einungis flækingur. Form og litmynstur er nánast eins hjá þessum frænkum en litir kvistyglu eru öllu daufari.

Kjarrygla (Xylena vetusta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Kjarrygla (Xylena vetusta) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Thank you!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |