Perlufiðrildi (Araschnia levana)

Perlufiðrildi - Araschnia levana
Mynd: Erling Ólafsson
Perlufiðrildi. 15 mm (bolur), 35 mm (vænghaf). ©EÓ

Útbreiðsla

M-Evrópa norður til Danmerkur, S-Svíþjóðar og S-Finnlands, suður til norðurhéraða Íberíuskaga og N-Grikklands en finnst annars ekki við Miðjarðarhaf; austur eftir Asíu til Japans. Var flutt inn til Bretlands á síðustu öld og skaut rótum þar tímabundið. Tegundin hefur aukið útbreiðslu sína á seinni árum.

Ísland: Tilfallandi slæðingur í Reykjavík.

Lífshættir

Perlufiðrildi er mjög sérstök og áhugaverð tegund. Tvær kynslóðir fljúga á sumri hverju og er á þeim mikill útlitsmunur. Sú fyrri (f. levana) flýgur í apríl til júní en sú seinni (f. prorsa) í júlí til október. Stundum sjást merki um þriðju kynslóð. Lirfurnar nærast á brenninetlu (Urtica dioica). Varphættir perlufiðrildis eru líka einstakir. Eggjum er verpt neðan á blöð netlunnar og hanga þau niður úr blöðunum eins og perlufesti, um tíu egg í hverri lengju. Þannig leynast þau snyrtilega innan um hangandi blómskipun netlunnar út frá blaðöxlum. Af þessu dregur tegundin íslenska heitið. Fullvaxin lirfan púpar sig á netlunni. Vorkynslóð skríður úr púpu eftir tveggja vikna þroska hennar en púpur haustkynslóðar leggjast í vetrardvala til að klekjast næsta vor. Perlufiðrildi heldur sig einkum í skóglendi, í rjóðrum og með stígum.

Almennt

Tegundin er fágætur slæðingur hér á landi en aðeins eitt tilfallandi tilvik er þekkt. Perlufiðrildi út í glugga húss í Reykjavík snemma í janúar 1994. Þar við gluggann stóð jólaskreyttur danskur norðmannsþynur og líkast til hefur púpa fylgt honum til landsins og síðan klaktist þegar ylur stofunnar hitaði hana upp og gaf til kynna vorkomu. Fiðrildið var af vorkynslóðinni, en slík eru appelsínugul að grunni til alsett dökkum dröfnum og beltum bæði á framvængjum og afturvængjum. Reyndar var eintakið sem hér fannst heldur dekkra en algengast er. Fiðrildi af haustkynslóð eru hins vegar nær svört með ljósar dröfnur og belti þvert yfir miðja vængina, bæði fram- og afturvængi. Fiðrildi af tilfallandi þriðju kynslóð bera útlitseinkenni beggja hinna.

Perlufiðrildi (Araschnia levana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands
Perlufiðrildi (Araschnia levana) - fundarstaðir samkvæmt eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands

Heimildir

Benton, T. & T. Bernhard 2006. Easy Butterfly Guide. Easy Nature Guides. Duncan Petersen Publishing Ltd., London. 256 bls.

Captains European Butterfly Guide. Map - Araschnia levana. http://www.butterfly-guide.co.uk/species/nymphalids/bret11.htm [skoðað 14.3.2012]

Chinery, M. 1998. Collins Guide to Butterflies.A photographic guide to the butterflies of Britain and Europe. Harper Collins Publishers, Fulham. 652 bls.

Hermansen, K. 2010. Dagsommerfugle i Danmark. Danmarks Dyreliv, Bind 11. Apollo Books, Stenstrup. 223 bls.

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn. 383 bls.

UK Butterflies. Map Araschnia levana. http://www.ukbutterflies.co.uk/species.php?allimages&species=levana [skoðað 14.3.2012]

Wikipedia. Map (butterfly). http://en.wikipedia.org/wiki/Map_%28butterfly%29 [skoðað 14.3.2012]

Höfundur

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |